Íslenski boltinn

Sjáðu Blika fara illa með meistarana og hvernig nýi gamli maðurinn bjargaði KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikar fagna einu marka sinna á móti Víkingum í Víkinni í gær.
Blikar fagna einu marka sinna á móti Víkingum í Víkinni í gær. Vísir/Hulda Margrét

Sjöttu umferð Bestu deildar karla í fótbolta lauk í gær með þremur leikjum og eftir leikinn munar orðið átta stigum á toppliði Breiðabliks og Íslandsmeisturum Víkings.

Breiðablik vann sinn sjötta leik í röð nú með því að mæta á heimavöll ríkjandi meistara í Víkinni og fagna 3-0 sigri. Öll mörkin komu í seinni hálfleiknum. KR vann líka mikilvægan og langþráðan heimasigur. Nú má sjá mörkin úr þessum leikjum hér inn á Vísi.

Ísak Snær Þorvaldsson og Jason Daði Svanþórsson nýttu sér mistök í Víkingsvörninni til að koma Blikunum í 2-0 en þriðja markið var algjört augnakonfekt. Kristinn Steindórsson skoraði það með frábæru skoti eftir magnaða sókn þar sem boltinn gekk vel á milli fjölmargra Blika á stuttu svæði.

Klippa: Mörk Blika á móti Víkingum

Þorsteinn Már Ragnarsson skipti aftur yfir í KR á dögunum eftir sjö ára fjarveru. Hann hefur verið í Garðabænum síðustu ár en var fljótur að minna á sig í Vesturbænum. Skoraði reyndar ekki eftir að hafa komið inn á sem varamaður í Eyjum á dögunum en var hetjan í gær.

Þorsteinn Már kom inn á sem varamaður á 61. mínútu og sex mínútum síðar hafði hann tryggt KR-ingum 1-0 sigur á Keflavík. Þetta var líka fyrsti heimasigur KR-liðsins en liðið hafði mistekist að vinna fyrstu tvo.

Klippa: Sigurmark KR á móti Keflavík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×