Um­fjöllun og við­tal: Stjarnan - Valur 1-0 | Fyrsta tap Vals

Árni Konráð Árnason skrifar
Sigurmarkinu fagnað.
Sigurmarkinu fagnað. Vísir/Hulda Margrét

Oliver Haurits tryggði Stjörnunni 1-0 sigur á Val með marki í uppbótartíma er liðin mættust á Samsung-vellingum í Garðabæ í Bestu deild karla í fótbolta. Um er að ræða fyrsta tap Vals í sumar.

Haraldur Björnsson hélt hreinu.Vísir/Hulda Margrét

Valsmenn áttu flottar upphafsmínútur í fyrri hálfleik og áttu þrjú skot að marki Stjörnumanna fyrstu 10. mínúturnar sem að Haraldur Björnsson átti ekki í nokkrum vandræðum með. Stjörnumenn unnu sig hratt og örugglega inn í leikinn og byrjuðu Valsmenn þá að bakka.

Það var á 21. mínútu sem að Stjörnumenn leika vel sín á milli og enda síðan sóknina á skoti frá Ólafi Karli Finsen. Skotið rétt fram hjá markinu en stuðningsmenn Stjörnunnar risu úr sætum.

Ólafur Karl Finsen og Emil Atlason áttu síðan flott samspil sín á milli á 27. mínútu. Emil Atlason hótaði að gera sjöunda mark sitt í Bestu deild karla þegar að hann átti skot að marki Valsmanna þar sem að Guy Smit þurfti að hafa sig allan við að verja boltann frá.

Guy Smit grípur boltann.Vísir/Hulda Margrét

Stjörnumenn héldu áfram að hóta, fyrirgjöf barst frá hægri til vinstri fyrir mark Valsmanna á 31. mínútu. Adolf Daði Birgisson í kjörstöðu til þess að koma Stjörnumönnum í 1-0 forystu en setur boltann fram hjá markinu.

Valsmenn héldu að mestu til baka í fyrri hálfleik og beittu skyndisóknum. Tryggvi Hrafn slapp nánast einn í gegn á 34. mínútu og kemst að markteig og skýtur boltanum beint í Harald sem að gerði vel í að loka markinu.

Sigurði Hirti, dómara leiksins, var farið að leiðast undir lok fyrri hálfleiks og hikaði ekki við að fara í vasann og spjalda menn. Hann stal senunni á lokamínútum fyrri hálfleiks. Mörkin komu þó ekki í fyrri hálfleik og fóru liðin jöfn til búningsklefa.

Þórarinn Ingi og Guðmundur Andri Tryggvason.Vísir/Hulda Margrét

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleik af meiri krafti en þann fyrri. Birkir Heimisson átti hálfgerða fyrirgjöf í átt að marki Stjörnumanna á 51. mínútu þar sem að boltinn barst til hans út við horn vítateigsins og hann virtist ætla að senda boltann fyrir markið en úr kom þetta hnitmiðaða skot sem að endaði í innanverðri fjærstöng og boltinn barst út í teig þar sem að Orri Hrafn kláraði sóknina með því að setja boltann langt yfir markið af stuttu færi.

Orri Hrafn gerði einkar vel fyrir Valsmenn á 57. mínútu þegar að fyrirgjöf barst fyrir mark Stjörnumanna og Orri er staðsettur á markteig og losar sig við Björn Berg með því að taka snúninginn og virtist ætla að koma Valsmönnum yfir, en Haraldur Björnsson gjörsamlega henti sér í átt að Orra og lokaði markinu alveg.

Algjört jafnræði ríkti með liðunum það sem af lifði leiks og virtist allt stefna í jafntefli. Það var þó samspil þriggja varamanna Stjörnunnar sem að tryggðu stigin þrjú í uppbótartíma. 

Ísak Andri vann boltann á miðjunni og gaf boltann upp völlinn á Óskar Örn sem að tók boltann með sér og gaf boltann fyrir markið á Oliver Hauritz sem að var einn á auðum sjó á markteig og setti boltann í netið á 2. mínútu uppbótartímans og tryggði þar með Stjörnunni afar mikilvæg þrjú stig, lokatölur 1-0 Stjörnunni í vil. 

Stjörnumenn ánægðir.Vísir/Hulda Margrét

Þetta var jafnframt fyrsta tap lærisveina Heimis Guðjónssonar í Bestu deildinni.

Af hverju vann Stjarnan?

Það var mikil barátta í Stjörnumönnum og gáfu þeir ekkert eftir. Þeir komu Valsmönnum snemma leiks aftar á völlinn og héldu þeim þar bróðurpart leiksins. Þeir spiluðu boltanum mjög vel sín á milli og menn voru með hlutverk sín á hreinu. Valsmenn gleyma sér á loka mínútum leiksins og Stjörnumenn refsa og jafnframt tryggðu sér öll stigin þrjú.

Stjörnumenn fagna.Vísir/Hulda Margrét

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel Laxdal var virkilega öflugur á miðju Stjörnumanna, þessi fyrrum hafsent hefur átt mjög gott tímabil í nýrri stöðu á miðjunni. Stöðvaði í kvöld sóknir Valsmanna og kom boltanum vel frá sér.

Þá var Ólafur Karl að spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik og var tekinn út á 60. mínútu hann var að gera mjög góða hluti á miðju Stjörnumanna á þessum 60. mínútum.

Hvað gekk illa?

Samspil Tryggva Hrafns, Ágústs og Guðmundar Andra var ábótavant. Valsmenn söknuðu klárlega Patrick og Arons í kvöld.

Guðmundur Andri niðurlútur.Vísir/Hulda Margrét

Hvað gerist næst?

Stjarnan heldur norður og mætir KA laugardaginn 21. maí. Valur mætir Víking Reykjavík á Origo Vellinum sunnudaginn 22. maí. Það eru því hörkuleikir í næstu umferð.

Ágúst Þór Gylfason: Dýrmæt þrjú stig

Jökull Elísabetarson og Ágúst Gylfason, þjálfarateymi Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét

„Dýrmæt 3 stig, virkilega góður karakter í liðinu. Þetta var stál í stál alla leið og bæði lið passasöm og voru ekki að fá mikið af færum á sig. Þetta leit út eins og þetta væri 0-0 jafntefli en ótrúlega sætt að sjá þetta í lokin og erfitt fyrir Val að koma til baka eftir það“ sagði Ágúst Þór þjálfari Stjörnunnar í viðtali við Vísi í kvöld. 

Valsmenn voru heldur aftarlega á vellinum bróðurpart leiksins og aðspurður sagði Ágúst að Stjarnan sé lið sem að vilji pressa og fannst honum þeir hafa gert það vel í kvöld, honum hafi þó ekkert liðið allt of vel með það þegar að Valsmenn byrjuðu að stýra leiknum undir lok leiks. 

Þeir voru farnir að nálgast markið okkar og þá erum við líka góðir í skyndisóknum og getum refsað þar. 

„Ég henti öllum útspilum út og átti góðar skiptingar og varamennirnir skiptu sköpum í lokin“ sagði Ágúst en samspil þriggja varamanna Stjörnunnar uppskáru markið í kvöld.

Stjörnumenn halda norður og mæta toppliði KA á Dalvík 21. maí: „Það verður vonandi góð ferð norður,“ sagði Ágúst en viðurkenndi þó að þeir væru ekkert að hugsa um þann leik núna, þeir væru enn að fagna sigrinum í kvöld.

Daníel Laxdal, Björn Berg og Þórarinn Ingi sáttir í leikslok.Vísir/Hulda Margrét

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.