West Ham tók stig af City og hleypti lífi í titilbaráttuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Riyad Mahrez fékk tækifæri til að tryggja City sigur af vítapunktinum.
Riyad Mahrez fékk tækifæri til að tryggja City sigur af vítapunktinum. Mike Hewitt/Getty Images

Manchester City og West Ham skiptu stigunum á milli sín þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Lokatölur 2-2, en Englandsmeistararnir klikkuðu á víti á lokamínútum leiksins.

Gestirnir í City hefu með sigri svo gott sem tryggt sér Englandsmeistaratitilinn annað árið í röð, en heimamenn þurftu svo sannarlega einnig á stigunum að halda í baráttu sinni um Evrópusæti.

Það voru heimamenn í West Ham sem tóku forystuna þegar Jarrodd Bowen kom boltanum í netið á 24. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni á lokamínútu fyrri hálfleiks og sá til þess að heimamenn fóru með óvænta 2-0 forystu inn í hléið.

Englandsmeistararnir mættu þó grimmir til leiks í síðari hálfleik og hundrað milljóna maðurinn Jack Grealish minnkaði muninn fyrir gestina strax á 49. mínútu.

Gestirnir voru svo búnir að jafna metin þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka þegar Vladimir Coufal varð fyrir því óláni að stýra aukaspyrnu Riyad Mahrez í netið.

Gestirnir frá Manchester fengu svo tækifæri til að fullkomna endurkomu sína þegar Craig Dawson braut á Gabriel Jesus innan vítateigs á 86. mínútu. Riyad Mahrez fór á punktinn, en Lukasz Fabianski var vandanum vaxinn í rammanum og varði frá Alsíringnum.

Niðurstaðan varð því 2-2 jafntefli og titilbaráttan lifir enn góðu lífi. Manchester City trónir enn á toppi deildarinnar, nú með 90 stig þegar liðið á einn leik eftir. Liðið er með fjögurra stiga forskot á Liverpool sem á leik til góða og þarf því á sigri að halda í lokaleiknum ef þeir ætla ekki að treysta á hagstæð úrslit í leikjum Liverpool.

West Ham situr hins vegar í sjöunda sæti deildarinnar með 56 stig og heldur enn í veika von um að ná sæti í Evrópudeildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira