Erlent

Veikindaleyfi fyrir konur með mikla tíðaverki á teikniborðinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Læknisvottorð þyrfti til að konur með mikla tíðaverki gætu fengið veikindadaga.
Læknisvottorð þyrfti til að konur með mikla tíðaverki gætu fengið veikindadaga. Vísir/Getty

Spænska þingið er nú með frumvarp til umfjöllunar sem veitti konum með mikla tíðaverki þrjá til fimm veikindadaga á mánuði. Verði frumvarpið að lögum verða þau fyrsta lög sinnar tegundar í Evrópu.

Til stendur að kynna frumvarpið í ríkisstjórn Spánar í byrjun næstu viku. Það er hluti af stærri umbótum á lögum um frjósemisheilsu þar sem meðal annars eru lagðar til breytingar á lögum um þungunarrof, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Til að eiga rétt á veikindadögum vegna tíðaverkja þyrftu konur að fá vottorð frá lækni. Væru verkirnir sérstaklega skæðir væri möguleiki á að fjölga veikindadögunum úr þremur í fimm. Réttur á ekki að ná til kvenna sem fá minni óþægindi.

Enn er aðeins um frumvarpsdrög að ræða og gæti það því tekið breytingum ennþá.

Stærra frumvarpið um frjósemisheilsu leggur einnig til afnám virðisaukaskatts á tíðavörur og að boðið verði upp á þær í opinberum stofnunum eins og skólum og fangelsum. Þá er lagt til greitt fæðingarorlof fyrir fæðingu barns.

Þá kveður frumvarpið á um að afnema kröfur um að stúlkur þurfi að hafa náð sextán ára aldri til að fá að gangast undir þungunarrof án samþykkis foreldra eða forráðamanna. Einnig verða afnumdar kröfur um að konur þurfi að bíða í þrjá daga eftir þungunarrofi og að þær verði að veita á opinberum heilbrigðisstofunum.

Kaþólskir læknar fá áfram heimild til þess að neita að framkvæmda þungunarrof af trúarlegum ástæðum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.