Enski boltinn

City fékk Haaland á mesta afslætti sögunnar samkvæmt úttekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Haaland er enn bara 21 árs gamall en búinn að sanna sig á stóra sviðinu.
Erling Braut Haaland er enn bara 21 árs gamall en búinn að sanna sig á stóra sviðinu. Twitter

Það voru mörg stórlið á eftir norska framherjanum Erling Braut Haaland en á endanum voru það verðandi Englandsmeistarar Manchester City sem höfðu betur í því kapphlaupi eins og þeir eru að gera væntanlega í kapphlaupinu um enska titilinn í ár.

Það er hins vegar verðið sem City borgar fyrir þennan 21 árs ofurframherja sem er kannski mesta afrekið. City borgar Dortmund nefnilega bara uppsagnarákvæði í samningi Haaland sem hefði farið fyrir svo mikið meira á opnum markaði.

Fólkið á GiveMeSport vefnum tók saman lista yfir þá knattspyrnumenn sem hafa verið keyptir á mestum afslætti á þáverandi markaðsvirði og Norðmaðurinn er þar efstur á lista. Þeir nýta sér þar verðmat Transfermarkt síðunnar vinsælu.

Haaland sló þar út Lionel Messi þrátt fyrir að argentínska goðsögnin hafi ekki kostað Paris Saint Germain eina krónu síðasta haust.

Messi fór þar 72 milljónum punda undir markaðsvirði á þeim tíma en hann var náttúrulega orðinn 33 ára gamall þegar hann kom til PSG.

Haaland var keyptur á 54 milljónir punda og City fékk hann því á 81 milljón punda undir markaðsvirði samkvæmt umræddri samantekt. Félagsskiptasíðan Transfermarkt mat Haaland á 135 milljónir punda þegar kaupin fóru fram.

Eins og með fleiri kaupverð á leikmönnum þá mun bætast mikið við þessa upphæð eins og bónusgreiðslur, greiðslur til umboðsmanna og annað slíkt. Þetta er aftur á móti kaupverðið sjálft.

Erling Haaland er í dag næstverðmætasti leikmaður heimsins á eftir Frakkanum Kylian Mbappé. Í þriðja sæti er Vinicius Junior hjá Real Madrid, Mohamed Salah er fjórði og Harry Kane situr í fimmta sæti á undan Phil Foden.

En af fleiri leikmönnum sem hafa farið á miklum afslætti þá var Daninn Christian Eriksen í efsta sætinu áður en Messi fór til PSG og Haaland til Manchester City. Tottenham seldi danska miðjumanninn á 56,7 milljónum punda undir markaðsvirði til Internazionale.

Í fjórða sæti eru önnur kaup PSG síðasta haust eða þegar félagið fékk ítalska landsliðsmarkvörðinn Gianluigi Donnarumma frítt frá AC Milan. Fimmti á listanum er síðan David Alaba sem Real Madrid fékk frítt frá Bayern München þegar hann var metinn á 49,5 milljónir punda.

City er því að fá Haaland á svo góðu verði að helsta samkeppnin, fyrir utan fyrrnefndan Eriksen, er frá leikmönnum sem runnu út á samning og fóru frítt á milli liða.

 • Leikmenn milli liða á mestum afslæti miðað við tölur Transfermarkt:
 • 1. Erling Haaland (Borussia Dortmund til Man. City) – 81 milljón punda munur
 • 2. Lionel Messi (Barcelona til Paris Saint-Germain) – 72 milljónir punda munur
 • 3. Christian Eriksen (Tottenham Hotspur til Inter) – 56,7 milljónir punda munur
 • 4. Gianluigi Donnarumma (AC Milan til PSG) – 54 milljónir punda munur
 • 5. David Alaba (Bayern München til Real Madrid) – 49,5 milljónir punda munur
 • 6. Robert Lewandowski (Dortmund til Bayern) – 45,0 milljónir punda munur
 • 7. Memphis Depay (Lyon til Barcelona) – 40,5 milljónir punda munur
 • 8. Nabil Fekir (Lyon til Real Betis) – 36,23 milljónir punda munur
 • 9. Leon Goretzka (Schalke til Bayern München) – 36 milljónir punda munur
 • 9. Stefan de Vrij (Lazio til Inter Milan) – 36 milljónir punda munur
 • 9. Aaron Ramsey (Arsenal til Juventus) – 36 milljónir punda munur
 • 12. Alexis Sanchez (Arsenal til Manchester United) – 32,4 milljónir punda munur
 • 13. Eden Hazard (Chelsea til Real Madrid) – 31,5 milljón punda munur
 • 13. Michael Ballack (Bayern München til Chelsea) – 31,5 milljón punda munur
 • 13. Hakan Calhanoglu (AC Milan til Inter Milan) – 31,5 milljón punda munur
 • 13. Niklas Sule (Bayern til Dortmund) – 31,5 milljón punda munurFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.