Enski boltinn

De Bruyne spilaði ekki bara eins og Haaland heldur fagnaði eins og hann líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne fagnar hér þriðja markinu sínu í gærkvöldi.
Kevin De Bruyne fagnar hér þriðja markinu sínu í gærkvöldi. Getty/Chris Brunskill

Kevin de Bruyne er þekktastur fyrir stoðsendingar sínar en í gær braust fram markaskorarinn De Bruyne á úrslitastundu fyrir lið Manchester City í baráttunni um enska meistaratitilinn.

De Bruyne bauð upp á mikla sýningu og skoraði fernu í 5-1 stórsigri City á Úlfunum á útivelli.

Daginn eftir að Manchester City tilkynnti um kaup á norska ofurframherjanum Erling Haaland þá spilaði Belginn eins og Haaland.

Ekki nóg með það þá fagnaði De Bruyne einnig eins og Haaland það er eftir að hann skoraði sitt þriðja mark á fyrstu 24 mínútum leiksins.

„Ég gerði þetta bara af því að ég skoraði þrjú mörk. Það gerist aldrei,“ sagði Kevin de Bruyne eftir leikinn.

Á næsta tímabili verður City með hinn 21 árs gamla Haaland í fremstu víglínu og sá má búast við flottum sendingum frá De Bruyne.

„Ég er vonsvikinn fyrir hans hönd að hafa klikkaði þegar hann gat innsiglað fimmuna,“ sagði Pep Guardiola léttur um De Bruyne eftir leik en spænski stjórinn hrósaði líka Belganum mikið.

„Hvað get ég sagt? Seinni hluti tímabilsins hjá honum hefur verið nær fullkominn. Hann er alltaf svo örlátur og hefur tilfinningu fyrir að gera stoðsendingu en á þessu tímabili hefur hann einnig sýnt það og sannað að hann getur skorað mörk,“ sagði Guardiola.

„Hann vann leikinn á móti Chelsea og skoraði á móti Real Madrid. Hann hefur verið að skora mikilvæg mörk og það er það sem þeir bestu gera. Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd því það er mikilvægt að skora fernu á úrslitastundu í deildinni,“ sagði Guardiola.

Hér fyrir neðan má sjá þriðja markið og hvernig De Bruyne fagnaði því.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.