Enski boltinn

Tielemans og Jesus efstir á óskalista Arsenal í sumar

Atli Arason skrifar
Tielemans hefur komið sem stormsveipur inn í lið Leicester
Tielemans hefur komið sem stormsveipur inn í lið Leicester vísir/getty

Belgíski miðjumaður Leicester City, Youri Tielemans, er ofarlega á óskalista Arsenal í sumar ef marka má nýjustu tíðindi frá Englandi.

Leicester er sagt tilbúið að selja Tielemans í sumar þar sem leikmaðurinn hefur neitað að skrifa undir nýtt samningstilboð frá félaginu. Skrifi Tielemans ekki undir nýjan samning á Leicester í hættu að missa leikmanninn frá sér frítt í janúar 2023.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, er að leitast eftir því að styrkja liðið sitt fyrir næsta tímabil og horfir hýru auga til Belgans knáa hjá Leicester. Sjálfur vill Tielemans spila fyrir lið sem leikur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Tottenham er einnig sagt áhugasamt um leikmanninn en Tottenham og Arsenal leika á morgun viðureign sem gæti verið hreinn úrslitaleikur um hvort liðið fái þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu næsta tímabil. Arsenal er fyrir leikinn í fjórða sæti, fjórum stigum á undan Tottenham þegar þrjár umferðir eru eftir. Framtíð Tielemans gæti því verið ráðin í leikslok fari svo að Arsenal vinni leikinn.

Arsenal er einnig að skoða Ruben Neves, leikmann Wolves, Fabian Ruiz, leikmann Napoli, og Gabriel Jesus, leikmann Manchester City. Arsenal hefur nú þegar átt viðræður við Jesus sem segist einbeittur á að klára tímabilið með City áður en hann tekur ákvörðun um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×