Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik 3-2 Stjarnan | Blikar ná í mikilvæg stig í hörkuleik

Árni Jóhannsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson hefur farið á kostum í upphafi sumars.
Ísak Snær Þorvaldsson hefur farið á kostum í upphafi sumars. vísir/vilhelm

Óskar Hrafn Þorvaldsson og hans lærisveinar í Breiðablik höfðu betur gegn gamla læriföðurinum, Ágústi Gylfasyni og Stjörnumönnum. Breiðablik er með fullt hús stiga eftir fimm umferðir og sitja sem fastast á toppi deildarinnar.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega en strax á fyrstu mínútu komst Jason Daði Svanþórsson á mikinn sprett sem ógnaði marki en boltanum var hreinsað í hornspyrnu. Liðin náðu ekki að fylgja þeim krafti eftir en næstu mínútur fóru í að þreifa á hvort öðru en Blikar höfðu þó boltann meira og sköpuðu sér betri stöður án þess að komast í færi.

Á 15. mínútu dró til tíðinda þegar heimamenn komust yfir en það lá þó ekki í loftinu. Jason Daði og Dagur Dan Þórhallsson spiluðu saman á hægri kanti og komst Jason upp að endamörkum. Jason sendi boltann fyrir og Haraldur Björnsson markvörður sló boltann út í teiginn en maður hefði viljað að hann hefði gripið hann. Enginn varnarmaður rankaði við sér og Dagur var gráðugastur í að ná skoti sem endaði í netinu en markið var opið og fleiri Blikar voru á leiðinni í boltann til að ná honum.

1-0 breyttist í 2-0 níu mínútum seinna og héldu menn að þetta yrði hræðilegur dagur á skrifstofunni hjá Stjörnunni. Að verki var Jason Daði en Viktor Örn Margeirsson lyfti boltanum örugglega 40 metra inn fyrir háa varnarlínu Stjörnunnar. Hlaupið hjá Jasoni var fullkomlega tímasett og hafði hann tíma til að koma boltanum fyrir sig og leggja boltann framhjá Haraldi sem kom út á móti. Varnarmennirnir héldu að Jason væri rangstæður en svo var ekki og stuðið allt Blika megin í leiknum.

Gestirnir fengu svo líflínu þegar sjö mínútur lifðu af hálfleiknum. Stjörnumenn fengu horn sem Guðmundur Baldvin Nökkvason framkvæmdi. Skrúfaði Guðmundur boltann inn að marki Blika og endaði hann í hliðarnetinu fyrir innan marklínuna fjær og mark staðreynd. Blikar voru ósáttir og kvörtuðu sáran yfir því að Anton hafi verið hindraður í að komast að boltanum en af endursýningum að dæma þá var ekkert athugavert við þetta og markið stóð.

Stjörnumenn efldust við þetta og fóru mikið sáttari inn í búningsklefann í hálfleik þó þeir væru marki undir.

Seinni hálfleikur einkenndist af hita og hörku eins og nágrannaslag sæmir. Línan hjá dómurum leiksins var skrýtin, sumt leyft og annað ekki, en það hallaði á hvorugt lið. Þau voru bæði mjög ósátt við dagsverk dómaranna. Blikar voru ívið sterkari aðilinn en gestirnir fengu sín færi til að skapa usla og koma Blikum í klandur.

Á 73. mínútu gerði Stjarnan tvöfalda skiptingu þar sem inn á komu Ólafur Karl Finsen og Óskar Örn Hauksson komu inn á. Ekki dónalegt það og bar skiptingin ávöxt skömmu síðar eða á 79. mínútu þegar þeir félagar léku sín á milli á vinstri kantinum. Ólafur Karl Finsen komst upp að endarmörkum  lyfti boltanum inn í teiginn þar sem Emil Atlason var staddur til að taka boltann á lofti og sendir hann í samskeytin frá vítapunktinum eða þar um bil.

Það hleypti leiknum upp og fór örugglega um margan í stúkunni. Þær áhyggjur urðu síðan að engu sex mínútum síðar. Höskuldur Gunnlaugsson gaf þá boltann inn í teiginn og þar reis Viktor Örn Margeirsson eins og haförn til að stanga boltann í netið. Óverjandi fyrir markvörðinn og Blikar enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. 

Afhverju vann Breiðablik?

Í raun og veru er það þannig að Blikar skoruðu marki meira. Þeir höfðu góð tök á leiknum lungan úr leiknum en Stjörnumenn gáfu þeim flottan leik og erfiðann. Það var því heilmikill léttir og karakter, að ná í markið sem skar úr fyrst þeir voru ekki búnir að gera út um leikinn.

Bestir á vellinum?

Viktor Örn Margeirsson var valinn maður leiksins og er vel að því kominn. Hann stöðvaði mikið af sóknaraðgerðum gestanna, gaf stoðsendingu og skoraði sigurmarkið fyrir sína menn. Jason Daði Svanþórsson var atkvæðamikill fyrir Blika og skoraði mark og var hluti af fyrsta marki sinna manna.

Hvað gekk illa?

Sóknarmönnum gekk illa á löngum köflum í dag en samt litu fimm mörk dagsins ljós. Stjörnumönnum gekk svo illa að ráða við gestina lengi framan af. Varnarmennirnir virkuðu ósannfærandi og var vart við stress en þeir risu upp og náðu að gera þetta að alvöru leik.

Hvað næst?

Blikar eru á toppi deildarinnar og eru vel að því komnir enda búnir að vera frábærir í sumar. Næst er hörkuslagur þegar þeir fara í heimsókn í Víkina á mánudaginn. Stjörnumenn þurfa að vera snöggir að jafna sig því Valsmenn koma í heimsókn í Garðabæinn á sunnudaginn.

Ágúst Gylfason: Mér finnst við hafa átt að fá eitthvað út úr þessu

Ágúst Gylfason var svekktur með úrsltiin en ánægður með sína menn engu að síður.vísir/anton

„Fyrst og fremst er það svekkjandi að vera kominn inn í leikinn og búinn að jafna og tapa“, sagði þjálfari Stjörnumanna, Ágúst Gylfason, strax eftir tap sinna manna í kvöld. Hann hélt áfram.

„Mér fannst við heilt yfir ekki síðri aðilinn í kvöld í rauninni. Það var jafnræði með liðunum. Þeir voru kannski betri í fyrri en við komum sterkari út í seinni hálfleik eins og svo oft áður í leikjunum okkar. Það var svo bara ótrúlega súrt að fá þetta mark á sig úr föstu leikatriði í lokin. Það var erfitt að koma til eftir það en við reyndum. Virkilega góður karakter í liðinu að koma til baka fyrr í leiknum og leikmennirnir eiga hrós skilið.“

Ágúst var þá spurður hvað hann hafi lært um liðið sitt í kvöld og kannski helst ungu leikmennina sem hann tefldi fram.

„Ég er náttúrlega búinn að vinna með ungu mönnunum síðan í vetur. Við erum með góðan hóp og það var karakter í þeim í kvöld. Við erum að byggja ofan á þessa stráka og þetta verða frábærir leikmenn í framtíðinni.“

Ágúst var spurður út það hvort hann væri sammála kollega sínum hinummegin um að línan í dómgæslunni hafi verið skrýtin í kvöld.

„Hún var kannski skrýtin. Það verst við þetta er að það má ekkert segja við þá því þá er komið spjald á loft. Þeir þurfa að taka til sín. Við eigum að geta talað saman og maður á ekki að þurfa að fá spjald fyrir að nefna eitthvað sem maður er ósáttur við og vill fá útskýringu á.“

Að lokum var Ágúst spurður út í áhrifin sem það hefur á leikmenn að fá svona skell í lokin.

„Ég hef engar áhyggjur af því. Þetta bara styrkir okkur og við sýnum karakter og komum til baka á erfiðum útivelli. Mér finnst við hafa átt að fá eitthvað út úr þessu og þá hefði kvöldið orðið aðeins betra. Við lærum bara af þessu og komum sterkir inn í næsta leik.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira