Íslenski boltinn

Pétur: Mér fannst bara best að stilla þessu upp svona og þá geri ég það

Sverrir Mar Smárason skrifar
Pétur Pétursson var ánægður með sigur síns liðs í kvöld.
Pétur Pétursson var ánægður með sigur síns liðs í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Valur vann góðan 3-0 sigur á Keflavík í 3. umferð Bestu deildar kvenna á Hlíðarenda í kvöld. Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var sáttur við stigin þrjú.

„Mér fannst þetta bara mjög vel gert hjá okkur og sérstaklega seinni hálfleikurinn. Þær lágu rosalega aftarlega og voru mest með 10 menn bara fyrir utan teig. Það var erfitt að brjóta þær, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þegar við náðum markinu inn þá gerðum við þetta mjög vel,“ sagði Pétur.

Því næst spurði viðtalsmaður hann hvort þetta hefðu verið hin svokölluðu "tómatsósuáhrif" þar sem Valur þurfti tæpan klukkutíma til þess að brjóta niður vörn Keflavíkur en vann svo að lokum 3-0. Viðtalsmaður varð svo að útskýra fyrir Pétri hvað það væri.

„Ég veit ekki hvað tómatsósuáhrif eru. Ég hef aldrei heyrt þetta áður,“ sagði Pétur hlæjandi og hélt svo áfram, „eins og ég segi mér fannst við bara koma út á völlinn í seinni hálfleik mjög þolinmóðar og gerðum það sem við ætluðum að gera. Þá fannst mér líka að þetta myndi ganga upp hjá okkur.“

Valur tapaði gegn Þór/KA fyrir norðan í 2. umferð og segir Pétur það mikilvægt að komast aftur á sigurbraut.

„Já það er mikilvægt. En þetta eru allt saman erfiðir leikir sem við erum að spila og bara mikilvægt að vinna leiki,“ sagði Pétur.

Elín Metta hóf leikinn á bekknum í dag og inn í byrjunarliðið komu tveir nýir erlendir leikmenn. Þær Brookelynn Entz og Mariana Speckmaier. Pétur ræður og þannig er það.

„Mér fannst bara best að stilla þessu upp svona og þá geri ég það. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Pétur um liðsuppstillinguna.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom vil Vals í vetur frá Kýpur. Hún átti tvær stoðsendingar í leiknum í kvöld og var sífellt ógnandi. Pétur er ánægður með það hvernig hún hefur komið inn í liðið.

„Hún er alltaf að koma betur og betur inn í hópinn hjá okkur. Hún átti góðan leik í dag eins og svo margar aðrar,“ sagði Pétur að lokum.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.