Enski boltinn

Búnir að landa Haaland en Pogba sagði nei

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland kveður Dortmund í sumar og heldur að öllum líkindum til Manchester City.
Erling Haaland kveður Dortmund í sumar og heldur að öllum líkindum til Manchester City. Getty/Bernd Thissen

Ekkert virðist lengur geta komið í veg fyrir að Manchester City fái norska stjörnuframherjann Erling Braut Haaland í sínar raðir í sumar. Paul Pogba hafnaði hins vegar tilboði félagsins.

Þetta fullyrðir hinn virti miðill The Athletic í dag. Miðillinn vísar í þýska heimildamenn og segir að allt sé frágengið varðandi það að Haaland fari til City frá Dortmund í sumar og að sennilega verði tilkynnt um það í þessari viku.

Haaland, sem er enn aðeins 21 árs, hefur þar með valið lið Englandsmeistaranna fram yfir Spánarmeistara Real Madrid og fleiri félög.

Haaland hefur skorað 21 mark til þessa á leiktíðinni í þýsku 1. deildinni og skoraði 27 á síðustu leiktíð. Hann er með klásúlu í samningi sínum við Dortmund sem gerir hann falan fyrir 75 milljónir evra, eða 10,3 milljarða króna, og City hefur nú náð samkomulagi við Norðmanninn um kaup og kjör, þrátt fyrir skyndilegt andlát umboðsmanns hans, Mino Raiola.

City gerði Paul Pogba sömuleiðis tilboð um að halda áfram að spila í Manchester-borg en samningur Frakkans við Manchester United er að renna út.

Pogba, sem er 29 ára gamall, mun samkvæmt The Athletic hafa fengið tilboð frá City og íhugað það alvarlega en svo ákveðið að hafna því. Juventus, PSG og Real Madrid eru talin líklegust til þess að klófesta miðjumanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×