Umfjöllun og viðtöl: Leiknir R. - Víkingur R. 0-0 | Markalaust hjá Leikni og Víkingi

Sindri Már Fannarsson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Leiknir og Víkingur gerðu markalaust jafntefli þegar liðin áttust við í fjórðu umferð Bestu-deildar karla í fótolta á Domusnova-vellinum í Breiðholti í kvöld.

Leiknir var þarna að ná í sitt annað stig í deildinni í sumar en liðið gerði 1-1-jafntefli gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í síðustu umferð deildarinnar.

Víkingur hafði hins vegar beðið ósigur í síðustu tveimur leikjum sínum í deildinni áður en koma að þessum leik en Íslandsmeistararnir hafa fjögur stig eftir jafn marga leiki.

Leikurinn í kvöld var fremur tíðindalítill fyrir utan köll eftir vítaspyrnum frá leikmönnum Víkinga. Það var rok og rigning og það var erfitt að spila fótbolta eins og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga sagði í samtali við Vísi eftir leik.

Fyrsta kall eftir vítaspyrnu kom strax á fimmtu mínútu þegar Nikolaj Hansen slapp einn í gegnum vörn Leiknismanna, nær snertingu á boltann og er í kjölfarið felldur af Viktori Frey, markverði Leiknis.

Ekki mikið meira eftirtektarvert gerðist í fyrri hálfleik fyrir utan dauðafæri sem Kristall Máni nýtti ekki og svo gerðist Nikolaj Hansen brotlegur inn í teig Leiknismanna þegar hann gaf Brynjari Hlöðverssyni endurtekið olnbogaskot í bringuna, en ekkert var dæmt.

Kristall Máni féll í teignum í upphafi seinni hálfleiks en það var ekki mikil snerting þar og ekkert brot dæmt. Á sjötugustu mínútu féll Ari Sigurpálsson svo innan teigs og þrátt fyrir mótbárur Víkinga blés dómarinn ekki í flautuna. 

Fjórða kallið eftir vítaspyrnu kom í uppbótartíma þegar Ari Sigurpálsson féll aftur í teig Víkinga, Dagur Austmann virtist hafa sparkað hann niður. Víkingar héldu áfram að sækja fram á lokasekúndu en allt kom fyrir ekki og 0-0 lokatölur leiksins.

Hulda Margrét

Sigurður Heiðar: „Mér fannst ég sjá Leiknishjartað“

„Mér fannst þetta frábær frammistaða hjá liðinu, sérstaklega varnarleikurinn. Mér fannst við taktískt alveg hrikalega öflugir og svona einhvernveginn (Víkingur) sköpuðu sér ekki mikið fannst mér. Ég hefði viljað fá aðeins meiri gæði í sendingar og síðustu sendingar til þess að ógna markinu þeirra aðeins meira.En svona á heildina litið held ég að þetta hafi bara verið virkilega flott frammistaða.“ Sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson í samtali við Vísi eftir leik.

Aðspurður út í dómgæsluna sagði Sigurður: „Mér fannst dómgæslan bara nokkuð fín. Ég hef ekki skoðun á þessum vítaspyrnudómum en það getur vel verið að eitthvað hafi mögulega verið víti.“

Arnar Gunnlaugsson: „Bara eðlisfræði 101“

„Það var erfitt að spila fótbolta, við getum orðað það þannig. Við reyndum, ég var ánægður með frammistöðu okkar manna. Við reyndum og reyndum og hefðum svona á venjulegum degi getað skorað 2-3 mörk og höfðum fullan control á leiknum en inn vildi boltinn ekki.“ Sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga eftir leik.

Arnar var ósammála dómgæslu leiksins og honum fannst að sínur menn hefðu átt að uppskera að minnsta kosti eina vítaspyrnu. „Það voru allavega tvö af þessum fjórum atriðum sem manni fannst eins og, ef maður væri mjög skynsamur maður þá kæmi ekkert annað til greina. Sérstaklega þarna þegar Niko var tekinn niður í fyrri hálfleik. 

Af því að Niko sparkar boltanum soldið langt í burtu. Miðað við mína eðlisfræðikunnáttu í grunnskóla, ef að boltinn fer svona í áttina framhjá markinu þá er augljóslega markmaðurinn ekki að snerta boltann. Þannig að það er bara eðlisfræði 101.“

Hann ætlar þó ekki að erfa þessi mistök við dómarana. „Þetta er bara hluti af leiknum. Dómarar gera mistök og við gerum mistök, allir gera mistök. Mér finnst dómarar vera búnir að dæma mjög vel það sem af er af móti. Látið leiki ganga mjög hratt og örugglega en mér fannst þeir eiga mjög off dag í dag.“

Hulda Margrét

Af hverju var jafntefli?

Á heildina litið, ef við tökum mögulega vítaspyrnudóma úr reikningsdæminu, þá var jafntefli sanngjörn niðurstaða. Víkingar áttu vissulega fleiri færi en Leiknismenn voru skipulagðir og agaðir í varnarleik sínum og sköpuðu sömuleiðis einhver færi. 

Róbert Hauksson og Kristall Máni voru sprækustu sóknarmennirnir sitt hvoru megin og hefðu þeir báðir getað skorað í kvöld. Ef við tökum dómgæsluna inn í reikninginn er þetta hinsvegar allt annað mál. Ef Víkingur hefði fengið einhverja af vítaspyrnunum sem þeir vildu fá hefði leikurinn eflaust farið á annan veg.

Hverjir stóðu upp úr?

Brynjar Hlöðversson var án efa maður leiksins. Hann stóð sig frábærlega í vörninni og tókst að halda sóknarmönnum Víkinga í skefjum. Leiknisvörnin stóð sig öll frábærlega og þeir voru sérstaklega góðir í því að passa að skot Víkinga rötuðu ekki á rammann, þeir hentu sér fyrir allt. Viktor Freyr átti einnig góðan leik í marki Leiknis.

Hvað gekk illa?

Færanýting Víkinga hefur oft verið betri, þeir komust í nokkur dauðafæri en tókst ekki að nýta neitt þeirra. Þeir enduðu oft á því að gefast upp á því að spila sig inn í teig Leiknis og skjóta frekar fyrir utan teig en skotin voru ekki nógu góð í kvöld. Kristall Máni, Birnir Snær og Ari Sigurpálsson sköpuðu allir góð færi sem hefðu mátt fara í netið.

Hvað gerist næst?

Víkingar taka á móti nýliðum fram í Víkinni á fimmtudagskvöld en Leiknir fer til Keflavíkur á sama tíma.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.