Enski boltinn

Conte: Tottenham verður að eyða stórum fjárhæðum til að ná Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, á bekknum hjá Tottenham Hotspur.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, á bekknum hjá Tottenham Hotspur. Getty/Tottenham Hotspur

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að félagið þurfi að eyða miklum peningi í leikmenn ætli félagið að ná í skottið á Liverpool. Liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Tottenham gæti eyðilagt meistaravonir Liverpool þegar liðið mætir á Anfield í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Liverpool hefur reyndar ekki tapað á heimavelli á móti Tottenham síðan í maímánuði 2011.

Nú munar 21 stigi á liðunum en Tottenham er í harðri baráttu við Arsenal og Manchester United um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Conte tók við liði Tottenham í nóvember en það er ekki öruggt að hann verði áfram í stjórastólnum. Conte fór frá Internazionale síðasta sumar eftir að hafa gert liðið að ítölskum meisturum. Internazionale gat ekki styrkt liðið og Conte var ekki sáttur.

Nú er hann að setja pressu á forráðamenn Tottenham að fá pening til leikmannakaupa í sumar.

„Ég veit ekki hvort að það sé möguleiki á því að ég skrifi undir,“ sagði Antonio Conte. Klopp var að framlengja samning sinn við Liverpool til 2026. Það var ekki að heyra annað en að Conte telji sig geta gert það sama fyrir Tottenham og Klopp gerði fyrir Liverpool en til þess þurfi hann pening í leikmenn og mikið af honum. Svo auðvita tíma líka.

„Það var auðveldara fyrir Jürgen þegar hann kom til Liverpool. Þeir voru þá toppfélag þó ekki eins og þeir eru núna. Með mikilvægum stjóra, sama liði, góðum fjárfestingum og fullt af pening í leikmannakaup þá komust þeir þangað sem þeir eru núna,“ sagði Conte.

„Þeir nýttu sér tækifæri til að bæta liðið. Fyrir okkur að loka þessu bili þá verðum við að eyða miklum pening því Tottenham þarf að kaupa mikilvæga leikmenn. Án þeirra væri ekki hægt að vinna upp þetta forskot og svo verður þú alltaf að vonast líka eftir kraftaverki,“ sagði Conte.

„Ekki gleyma því að þetta er alltaf erfiðara í Englandi. Þar eru fjögur lið, sem keppa alltaf um titlana ef þau eiga ekki slæm tímabil,“ sagði Conte. Hann segir að innkaupalistinn sé langur og það verður fróðlegt að sjá hvort forráðamenn Tottenham séu tilbúnir að fara út í þann pakka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.