Íslenski boltinn

Valur fær tvo erlenda leikmenn

Sindri Sverrisson skrifar
Brookelynn Entz er þegar búin að skella sér í göngu upp í Reykjadal og Mariana Speckmaier spókaði sig um úti í Gróttu.
Brookelynn Entz er þegar búin að skella sér í göngu upp í Reykjadal og Mariana Speckmaier spókaði sig um úti í Gróttu. Instagram/@b_entz8/@marianaspeckmaier

Íslandsmeistarar Vals í fótbolta kvenna hafa fengið liðsstyrk í tveimur erlendum leikmönnum sem æft hafa með liðinu síðustu vikur og hafa nú fengið félagaskipti.

Þetta eru þær Brookelynn Entz og Mariana Speckmaier sem báðar ættu að geta eflt sóknarleik Vals sem óvænt tapaði 2-1 gegn Þór/KA í 2. umferð Bestu deildarinnar.

Speckmaier er 24 ára landsliðsframherji frá Venesúela sem var á mála hjá Washington Spirit í fyrra og lék þrjá leiki í bandarísku úrvalsdeildinni, eftir að hafa lokið háskólanámi.

Speckmaier gerði samning til tveggja ára við CSKA Moskvu í febrúar en var á lausu vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Entz er 23 ára sóknarsinnaður miðjumaður frá Bandaríkjunum sem var á mála hjá Kansas City Current í bandarísku úrvalsdeildinni í fyrra en lék þó ekki með liðinu í deildinni.

Valskonur hafa titil að verja í Bestu deildinni og unnu Þrótt 2-0 í fyrsta leik en töpuðu svo 2-1 á Akureyri á þriðjudaginn. Næsti leikur Vals er á heimavelli gegn Keflavík á mánudagskvöld en Keflvíkingar hafa unnið fyrstu tvo leiki sína.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×