Þetta eru þær Brookelynn Entz og Mariana Speckmaier sem báðar ættu að geta eflt sóknarleik Vals sem óvænt tapaði 2-1 gegn Þór/KA í 2. umferð Bestu deildarinnar.
Speckmaier er 24 ára landsliðsframherji frá Venesúela sem var á mála hjá Washington Spirit í fyrra og lék þrjá leiki í bandarísku úrvalsdeildinni, eftir að hafa lokið háskólanámi.
Speckmaier gerði samning til tveggja ára við CSKA Moskvu í febrúar en var á lausu vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Entz er 23 ára sóknarsinnaður miðjumaður frá Bandaríkjunum sem var á mála hjá Kansas City Current í bandarísku úrvalsdeildinni í fyrra en lék þó ekki með liðinu í deildinni.
Valskonur hafa titil að verja í Bestu deildinni og unnu Þrótt 2-0 í fyrsta leik en töpuðu svo 2-1 á Akureyri á þriðjudaginn. Næsti leikur Vals er á heimavelli gegn Keflavík á mánudagskvöld en Keflvíkingar hafa unnið fyrstu tvo leiki sína.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.