Íslenski boltinn

Ísak hefur búið til sex mörk fyrir Blika í fyrstu þremur leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar hér fyrra marki sínu á móti FH á Kópavogsvellinum í gær.
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar hér fyrra marki sínu á móti FH á Kópavogsvellinum í gær. Vísir/Hulda Margrét

Miðjumaðurinn Ísak Snær Þorvaldsson breyttist í sóknarmanninn Ísak Snæ þegar hann komst í hendurnar á Óskari Hrafni Þorvaldssyni, þjálfara Breiðabliks.

Ísak Snær hefur spilað mun framar á vellinum í upphafi þessa tímabils en hann gerði með Skagamönnum í fyrra og það er ekki hægt að kvarta mikið yfir uppskerunni.

Ísak skoraði tvívegis í 3-0 sigri á FH og skoraði einnig tvennu í fyrsta heimaleiknum á móti Keflavík. Hann er markahæsti leikmaður Bestu-deildarinnar með fjögur mörk.

Í fyrsta leiknum skoraði hann tvö lagleg skallamörk en á móti FH í gær bauð kappinn upp á tvær sannkallaðar markaskorara afgreiðslur, aðra með hægri en hina með vinstri.

Auk markanna fjögurra þá hefur Ísak einnig búið til tvö önnur mörk Blika og hefur því komið að sex af átta mörkum liðsins í fyrstu þremur leikjunum.

Ísak lagði upp sigurmark Jason Daða Svanþórssonar á móti KR og Kristinn Steindórsson skoraði á móti FH-ingum í gær þegar hann fylgdi eftir skoti Ísaks sem var varið á línu.

Ísak hefur þegar skorað einu marki meira í sumar en hann gerði í tuttugu leikjum með ÍA í fyrra. Þá átti hann alls þátt í sex mörkum með beinum hætti (3 stoðsendingar) og er hann því búinn að jafna þann árangur sinn strax eftir aðeins þrjá leiki.

Blikar hafa líka tekið þessu framlagi stráksins fagnandi enda með fullt hús á toppi deildarinnar.

Þeir sem voru að velta því fyrir sér hvernig Óskar Hrafn myndi leysa það að missa markaskorarana Árni Vilhjálmsson og Thomas Mikkelsen voru fljótir að fá svör við því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×