Enski boltinn

Ten Hag ekki enn haft samband við Rangnick: „Nokkuð viss um að hann sé með númerið mitt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ralf Rangnick bíður enn við símann.
Ralf Rangnick bíður enn við símann. getty/Manchester United

Erik ten Hag, verðandi knattspyrnustjóri Manchester United, hefur ekki enn heyrt í manninum sem hann tekur við starfinu af, Ralf Rangnick.

Ten Hag var kynntur sem nýr stjóri United 21. apríl síðastliðinn. Hann tekur við liðinu eftir tímabilið. Rangnick stígur þá til hliðar en verður áfram í ráðgjafarhlutverki hjá United. Sá þýski bíður enn eftir að heyra í eftirmanni sínum.

„Ég er nokkuð viss um að hann sé með númerið mitt,“ sagði Rangnick. „Hann á enn nokkra leiki eftir með Ajax og við eigum enn þrjá leiki eftir hérna. Ég er meira en klár í að heyra í honum og skiptast á skoðunum þegar hann vill.“

United mætir Brentford á Old Trafford í kvöld, í síðasta heimaleik sínum á tímabilinu. Liðið mætir svo Brighton og Crystal Palace á útivelli í síðustu tveimur umferðum ensku úrvalsdeildarinnar. United er í 6. sæti hennar.

Strákarnir hans Ten Hags í Ajax unnu 3-0 sigur á Zwolle í hollensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Ajax er með fjögurra stiga forskot á PSV Eindhoven á toppi deildarinnar þegar þremur umferðum er ólokið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.