Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - FH 3-0 | Blikarnir á toppinn eftir öruggan sigur

Sverrir Mar Smárason skrifar
Blikar unnu sterkan sigur gegn FH-ingum í kvöld.
Blikar unnu sterkan sigur gegn FH-ingum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik er enn með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Bestu-deild karla í fótbolta, en liðið vann öruggan 3-0 sigur gegn FH í stórleik kvöldsins.

Það var vel mætt á völlinn eða rúmlega 2000 manns og mikil stemning í blíðunni.

Breiðablik mætti til leiks með sama byrjunarlið og í tveimur fyrstu leikjum tímabilsins en FH gerði þrjár breytingar á sínu byrjunarliði. Kristinn Freyr sat leikbann, Finnur Orri var að glíma við meiðsli og Haraldur Einar settist á bekkinn. Inn komu Oliver Heiðarsson, Máni Austmann og Baldur Logi Guðlaugsson.

Leikurinn fór rólega af stað. Breiðablik hélt í boltann og reyndi að brjóta niður þétta vörn FH en það gekk illa framan af. Hvorugu liðinu tókst að búa sér til almennilegt færi fyrstu 40 mínútur leiksins. Það var svo Steven Lennon sem fékk fyrsta færið á 40. mínútu. Lennon var fyrstur á boltann eftir að Blikar hreinsuðu frá og dansaði af stað inn í teig Blika. Lennon reyndi svo skot með vinstri úr þröngu færi en Viktor Örn Margeirsson renndi sér fyrir.

Það virtist allt stefna í það þegar uppbótartími fyrri hálfleiks var kynntur að liðin færu markalaus inn í leikhléið en Ísaki Snæ Þorvaldssyni leyst ekkert á þá hugmynd. Eftir gott þríhyrningsspil við Davíð Ingvarsson úti vinstra megin keyrði Ísak inn í teig FH, fór illa með varnarmenn og lagði boltann snyrtilega framhjá Gunnari Nielsen í markinu. Blikarnir leiddu 1-0 í hálfleik.

Afmælisbarni Ísak Snær Þorvaldsson átti frábæran leik í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Síðari hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri. Breiðablik hélt boltanum og reyndi að brjóta niður vörn FH sem hélt neðarlega og vildi reyna á skyndisóknir. Á 71. mínútu komst Breiðablik svo í 2-0, mark sem lá í loftinu eftir mikla pressu frá Blikum. Anton Ari sendi þá langa sendingu fram sem Ísak Snær skallaði áfram á Davíð Ingvarsson. Davíð sendi fasta fyrirgjöf inn í teiginn sem Gunnar Nielsen virtist ætla að grípa en missti boltann í gegnum klofið á sér. Ísak Snær var fyrstur á boltann og reyndi skot sem Ólafur Guðmundsson varði á línu. Þá mætti Kristinn Steindórsson og skoraði af öryggi. Klaufaleg mistök þar hjá Gunnari Nielsen í marki FH.

Tæpum tveimur mínútum síðar var aftur komið að Ísaki Snæ, sem sömuleiðis varð 21. árs í dag og óskum við honum til hamingju með það. Anton Ari aftur með langa sendingu upp á Ísak sem nú skallaði boltann niður á Kristinn Steindórsson. Kristinn sendi boltann í fyrsta upp í vinstra hornið þar sem Davíð Ingvarsson var mættur líkt og áður. Davíð með frábæra fyrirgjöf beint á Ísak Snær inni í teignum sem þakkaði vel fyrir sig og skoraði sitt annað mark í leiknum, sitt fjórða á tímabilinu. Breiðablik komið í 3-0 og á tveimur mínútum búnir að gera út um allar vonir FH.

Það gerðist lítið það sem eftir lifði leiks sem áhorfendur höfðu ekki séð fyrr í leiknum. Breiðablik hélt boltanum og þrýsti FH liðinu aftarlega á völlinn. Leikurinn rann að lokum út í sandinn, Blikar unnu sinn þriðja leik í röð og sitja á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.

Blikar fögnuðu vel og innilega í leikslok.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Breiðablik?

Þeir voru bara miklu betri, einfalt mál. Varnarleikur FH hélt í 45 mínútur en þolinmæði Blika skilaði sér að lokum. Samspil Davíðs og Ísaks úti vinstra megin reyndist FH mjög erfitt og á sama tíma og Breiðablik skoraði 3 mörk þá hleyptu þeir FH liðinu nánast ekki í neitt gott færi. Breiðablik er að sýna á sér aðra hlið en síðastliðin ár og verða erfiðir við að eiga í sumar.

Hverjir voru bestir?

Títtnefndir Davíð Ingvarsson og Ísak Snær Þorvaldsson voru bestir í dag. Davíð leggur upp bæði mörkin á Ísak og þeir eiga svo báðir þátt í marki Kristins. Blikarnir réðu ekkert við þá.

Hvað má betur fara?

FH liðið virtist vera mætt hér í Kópavoginn til þess að halda jafnteflinu frekar en að sækja stigin þrjú. Þeir lögðust neðarlega á völlinn strax frá fyrstu mínútu og virtust hafa lítinn áhuga á því að vera með boltann eða sækja að marki Blika.

Sömuleiðis virðist lið FH vera þunnskipað og mega illa við skakkaföllum. Þeir hafa þó talað opinskátt um það að vera í leit að viðbótum.

Hvað gerist næst?

Breiðablik sest á topp deildarinnar í kvöld en þurfa svo að fara að undirbúa sig fyrir næsta leik svo þeir lendi ekki í eins skelli og ríkjandi meistarar en Breiðablik fer upp á Akranes og sækir ÍA heim laugardaginn 7. maí kl. 14:00.

FH situr í 8. sæti sem stendur með 3 stig. Þeir eiga sömuleiðis erfiðan leik í næstu umferð þegar þeir fá taplausa Valsmenn í heimsókn í Kaplakrika. Sá leikur verður spilaður föstudagskvöldið 6. maí kl. 19:15.

Sigurbjörn Örn: Við vorum ragir

Sigurbjörn Örn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari FH, fyrir aftan aðalþjálfarann, Ólaf Jóhannesson.Vísir/Hulda Margrét

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari FH, var súr í leikslok. Sérstaklega út í fyrsta mark Blika sem kom líkt og fyrr segir aðeins sekúndum fyrir leikhlé.

„Það var ömurlegt [að fá markið á sig] þar sem við vorum með boltann og gátum þrumað honum í burtu. Við bara klikkuðum þarna og fengum á okkur algjört klaufamark eftir að hafa staðið af okkur þeirra sóknarleik í fyrri hálfleik. Í sjálfu sér fannst mér það ganga vel upp. Þeir voru auðvitað meira með boltann hérna og á þessum velli mjög sterkir. Við vissum það og vorum bara í skipulagi en það var súrt að fá þetta mark þegar hálf mínúta var eftir af þessu,“ sagði Sigurbjörn.

„Í fyrri hálfleik þá héldum við boltanum ekkert sérstaklega, það var ljóst. Við vorum ragir. Þegar við þorðum að spila þá komumst við í ágætis stöður en því miður þá vorum við ekki nógu hugaðir í fyrri hálfleik. Vorum of fljótir að tapa bolta og þegar við náðum að gera eitthvað þá vorum við líka að fara til baka með boltann þegar við áttum að fara í ‚aggressíva‘ árás hérna. Svona er þetta og við vorum ekki alveg á deginum, það er ljóst,“ sagði Sigurbjörn einnig.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira