Valur hefur unnið síðustu þrjá deildarleiki liðanna en það vekur athygli hversu mikill munur hefur verið á leikjum liðanna á Hlíðarenda og svo á Meistaravöllum í Vesturbænum.
Síðustu tveir leikir á Hlíðarenda hafa endað 0-1 og 1-0 á meðan mörkunum hefur rignt vestur í bæ, lokatölur 4-5 árið 2020 og svo 2-3 á síðustu leiktíð.
Það hefur hins vegar ekki vantað baráttuna í leikina á Hlíðarenda þar sem liðin sönkuðu að sér sjö gulum spjöldum á síðustu leiktíð og sex árið þar á undan.

Það er ljóst að það verður barist til síðasta manns í kvöld en KR-ingar töpuðu 0-1 fyrir Breiðabliki í síðustu umferð og það er einfaldlega ekki í boði að tapa tveimur af fyrstu þremur leikjum tímabilsins.
Kjartan Henry Finnbogason ætti að snúa aftur í lið KR-inga en hann hóf mótið í tveggja leikja banni. Það ætti að reynast mikill happafengur en KR hefði getað nýtt markanef hans í leiknum gegn Breiðabliki í síðustu umferð. Þá vonast KR-ingar eftir því að Stefán Árni Geirsson hafi náð sér af meiðslum.
Heimir Guðjónsson hefur stillt upp sama liði í báðum leikjum Vals til þessa og verður forvitnilegt að sjá hvort hann haldi sig við sama lið í kvöld eftir nauma sigra gegn ÍBV og Keflavík. Sigur í kvöld myndi hins vegar sýna að Valur er til alls líklegt í Bestu deildinni í sumar.
Leikur Vals og KR er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4. Leikurinn hefst klukkan 19.15 en útsending stundarfjórðung fyrr. Að leik loknum verður hann gerður upp í Stúkunni.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.