Umfjöllun: Víkingur - Keflavík 4-1 | Öruggur sigur meistaranna

Sverrir Mar Smárason skrifar
Titilvörn Víkinga hefur verið upp og ofan í byrjun tímabils.
Titilvörn Víkinga hefur verið upp og ofan í byrjun tímabils. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Víkingar frá Reykjavík unnu góðan 4-1 sigur gegn Keflavík í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Leiknum, sem átti upphaflega að fara fram í 10. umferð, var flýtt vegna leikja Víkings í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Keflvíkingar urðu fyrir blóðtöku rétt fyrir leik þegar Frans Elvarsson, einn mikilvægasti leikmaður liðsins, meiddist í upphitun og gera varð breytingu á byrjunarliðinu en Ernir Bjarnason kom inn í liðið.

Víkingar tóku snemma öll völd á vellinum og þeir fengu fyrsta færið eftir aðeins sjö mínútna leik þegar Karl Friðleifur átti góða sendingu inn í teiginn á Nikolaj Hansen sem reyndi skot en Sindri Kristinn, markvörður Keflavíkur, varði vel.

Það var svo á 11. mínútu sem Víkingar tóku forystuna. Nikolaj Hansen var þá aftur í færi en skot hans í varnarmann. Boltinn datt til Kristals Mána í teignum sem tók vel á móti boltanum og skoraði fram hjá Sindra Kristni í markinu. Eftir þetta hófst flóðið.

Kristall Máni var arkitektinn að öðru marki Víkinga á 25. mínútu. Hann þræddi þá frábæra sendingu í gegnum vörn Keflavíkur í fætur Nikolaj Hansen sem var einn gegn Rúnari Gissurarsyni, sem kom inná fyrir Sindra Kristinn sem þurfti að fara af velli vegna höfuðhöggs, og lagði boltann í netið.

Á 39. mínútu var Kristall Máni svo aftur allt í öllu. Hann fékk góða sendingu upp í hægra hornið og tók vel á móti boltanum áður en hann sendi frábæra sendingu út í teiginn þar sem Birnir Snær Ingason, sem byrjaði sinn fyrsta keppnisleik fyrir Víkinga í kvöld, mætti og kláraði snyrtilega út við fjær stöngina. Víkingarnir komnir þremur mörkum yfir og nánast búnir að gera út um vonir Keflavíkur.

Ef Keflvíkingar höfðu einhverja von þá urðu þær algjörlega að engu stuttu fyrir hálfleik þegar boltinn barst til Júlíusar Magnússonar, fyrirliða Víkings, fyrir utan teig Keflavíkur í kjölfar hornspyrnu Víkinga. Júlíus gerði sér lítið fyrir og skoraði með viðstöðulausu skoti á lofti á nær stöng. Hálfleikstölur 4-0 fyrir heimamenn og leikurinn svo gott sem búinn.

Keflavík gerði tvær breytingar í hálfleik en Sindri Þór Guðmundsson kom inná ásamt Spánverjanum Nacho Heras sem hefur byrjað tímabilið meiddur. Víkingar virtust ætla að spara krafta sína í síðari hálfleiknum og sýndu mun minni ákefð lengst af í hálfleiknum. Varnarleikur Víkinga í síðari hálfleik fólst þó aðallega í því að halda boltanum frá Keflvíkingum og þannig ekki hleypa þeim í færi. Þeim tókst ætlunarverkið næstum því en á 96. mínútu náði Keflavík að skora sárabótamark. Varamennirnir, sem höfðu komið inná á 78. mínútu, Helgi Þór Jónsson og Adam Árni Róbertsson gerðu það mark úr skyndisókn. Helgi Þór fékk boltann úti vinstra megin og sendi góða sendingu inn á völlinn á Adam Árna. Adam lék á varnarmenn Víkinga áður en hann skoraði með laglegu skoti. Lokatölur 4-1 eftir sterkan fyrri hálfleik heimamanna og daufan síðari hálfleik heilt yfir.

Keflvíkingar sitja, eftir leikinn, á botni Bestu deildarinnar með 0 stig eftir 3 leiki á meðan Víkingar færa sig upp í 4. sætið með 6 stig.

Af hverju vann Víkingur?

Þeir voru staðráðnir í því að svara fyrir slæmt tap um liðna helgi. Þeir voru einbeittir og ákveðnir frá upphafi og mótspyrna Keflvíkinga var lítil. Gott spil og góð mörk ásamt traustum varnarleik gerði það að verkum að Víkingarnir unnu mjög sannfærandi sigur.

Hverjir voru bestir?

Kristall Máni Ingason var lang bestur á vellinum í dag. Sýndi sínar allra bestu hliðar og alla þá hæfileika hann býr yfir. Skoraði fyrsta markið og lagði upp tvö í kjölfarið. Varnarmenn Keflavíkur gátu lítið annað gegn honum en að sparka hann niður í dag.

Júlíus Magnússon var frábær á miðjunni hjá Víkingi ásamt Viktori Örlygi. Auðvelt væri að nefna nánast allt lið Víkinga en ég tel upp þessa þrjá.

Rúnar Gissurarson má alveg fá smá umtal en hann spilaði sinn fyrsta leik í úrvalsdeild í dag í marki Keflavíkur. Kom eins vel frá því verkefni og hann gat.

Hvað mætti betur fara?

Keflavík vantaði vilja og kraft. Þeir leyfðu Víkingum að labba yfir sig í fyrri hálfleik. Það var ekki gott að missa bæði Frans Elvarsson og Sindra Kristinn Ólafsson útaf meidda en þá þarf hópurinn að vera nógu breiður til þess að leysa það.

Hvað gerist næst?

Bæði lið leika í 3. umferð á mánudaginn n.k., 2. maí. Keflvíkingar mæta KA á Akureyri kl. 18:00 áður en Víkingar fá Stjörnuna í heimsókn í Víkina kl. 19:15.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira