Erlent

Birta mynd­efni frá töku­staðnum þar sem Hutchins var skotin til bana

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögreglan hefur meðal annars birt klippu þar sem Alec Baldwin sést æfa umrædda senu.
Lögreglan hefur meðal annars birt klippu þar sem Alec Baldwin sést æfa umrædda senu. Skjáskot

Lögregluyfirvöld í Nýju-Mexíkó birtu í gær myndefni sem stuðst er við í rannsókn á dauða kvikmyndatökustjórans Halyna Hutchins í október í fyrra.

Hutchins lést þann 21. október 2021 eftir að skot hljóp úr byssu sem leikarinn Alec Baldwin beindi að henni við tökur á kvikmyndinni Rust en auk hennar særðist leikstjórinn Joel Souza.

Myndefnið, sem var meðal annars tekið með búkmyndavél, sýnir að sögn AP-fréttaveitunnar frá leit að skotvopninu sem leiddi lögreglumann á vettvangi að vopnaverði sem brast í grát. Annað myndbrot sýnir þegar Baldwin æfir það að draga byssu fljótt úr slíðri.

Adan Mendoza, lögreglustjóri í Santa Fe í New Mexíkó, segir í yfirlýsingu að rannsókn málsins standi enn yfir og meðal annars sé beðið eftir skotvopnafræðiniðurstöðum og réttarfræðilegri greiningu frá bandarísku alríkislögreglunni. Að sögn Mendoza tók lögregluembættið ákvörðun um að birta öll gögn sem tengdust rannsókninni, þar á meðal ljósmyndir af byssunni.

Horfa má á hluta af myndefninu og ljósmyndum sem lögreglan birti í spilaranum fyrir neðan. 

Reyndi að púsla saman atburðarásinni

Í myndbandi sem tekið var af lögreglunni síðar þennan dag sést Baldwin hringja nokkur örvængingafull símtöl á meðan hann bíður eftir því að fá að ræða við lögreglu.

„Þú hefur enga hugmynd um það hversu ótrúlegt þetta er og hversu skrítið þetta er,“ sést hann segja hann í síma.

Í skýrslutölu sést Baldwin reyna að púsla saman atburðarásinni áður en hann virðist hafa áttað sig á því að Hutchins væri í lífshættu. Lýsir hann því meðal annars að byssan hefði átt að vera algjörlega tóm á meðan æfing stóð yfir og slökkt var á myndavélunum. 

Áður hefur Baldwin lýst því yfir í samtali við fjölmiðla að hann hafi beint byssunni að Hutchins að hennar eigin ósk og ekki tekið í gikkinn áður en skotið hljóp úr byssunni sem banaði kvikmyndatökustjóranum. Þau voru stödd í lítilli kirkju að æfa senu þegar avikið átti sér stað.

Framleiðendur kvikmyndarinnar Rust hafa verið sektaðir um tæplega 137 þúsund dali í tengslum við dauða Hutchins. Umhverfisdeild Nýju Mexíkó sagði framleiðendur hafa sýnt fram skeytingarleysi um hættur skotvopna á tökustað.

Sektin sem um ræðir sú hæsta sem deildin gat gefið út en upphæðin samsvarar ríflega 17,5 milljónum króna. Þá kemur fram í niðurstöðunni að þeir sem sáu um myndina vissu af því að ekki væri farið eftir öryggiráðstöfunum þegar kom að notkun skotvopna. Framleiðendurnir segjast ósammála niðurstöðunni og ætla að áfrýja.


Tengdar fréttir

Framleiðendur Rust sektaðir um rúmlega 17 milljónir króna

Framleiðendur kvikmyndarinnar Rust hafa verið sektaðir um tæplega 137 þúsund dali í tengslum við dauða kvikmyndatökustjórans Halyna Hutchins í október í fyrra. Umhverfisdeild Nýju Mexíkó sagði framleiðendur hafa sýnt fram skeytingarleysi um hættur skotvopna á tökustað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×