Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍA 2-2 | Skagamenn sóttu stig í Garðabæinn

Hjörvar Ólafsson skrifar
Úr leik ÍA og Keflavíkur á síðustu leiktíð.
Úr leik ÍA og Keflavíkur á síðustu leiktíð. Vísir/Daníel

Stjarnan og ÍA skiptu stigunum á milli sín þegar liðin mættust í fyrstu umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabænum í kvöld. Lokatölur í skemmtilegum og fjörugum leik urðu 2-2. 

Jóhann Árni Gunnarsson og Óskar Örn Hauksson, sem báðir komu til Stjörnunnar fyrir tímabilið, skoruðu mörk Garðbæinga í leiknum. Gísli Laxdal Unnarsson og Kaj Leo Í Bartalstovu sáu hins vegar um markaskorunina fyrir gestina af Skaganum.

Það var Gísli Laxdal Unnarsson sem kom Skagmönnum yfir eftir tæplega 20 mínútna leik. Alex Davey vann þá boltann við miðlínu, óð upp völlinn og lagði boltann til hliðar á Gísla Laxdel sem kláraði færið á snyrtilegan hátt.

Stjörnumenn voru meira með boltann í fyrri hálfleik og fengu nokkur fín færi en inn vildi tuðran ekki. Óskar Örn fékk tvö fín færi en skaut boltanum framhjá markinu í bæði skiptin. Eggert Aron Guðmunsson og Ísak Andri Sigureirsson freistuðu einnig gæfunnar án árangurs. 

Strax í upphafi fyrri hálfleiks jafnaði Jóhann Árni metin með sínu fyrsta deildarmarki fyrir Stjörnuna. Eggert Aron og Óli Valur Ómarsson léku þá laglega saman á hægri vængnum. Óli Valur renndi boltanum út á Jóhann Árna sem skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti.

Um miðbik seinni hálfleiks var svo komið að Óskari Erni en fyrsta mark hans fyrir Stjörnuna var einkar huggulegt. Óskar Örn lét skotið ríða af utan vítateigs Skagamanna og boltinn söng í netinu.

Stjörnumenn voru líkt og í fyrri hálfleik sterkari aðilinn í þeim seinni en Skagamenn minntu reglulega á sig með hættulegum sóknum. Bæði með fyrirgjöfum og skyndisóknum. 

Kaj Leo Í Bartalstovu tryggði svo Skagamönnum stig þegar hann potaði boltanum í netið af stuttu færi eftir flotta fyrirgjöf frá Jóhannes Birni Vall utan af vinstri kanti.

Ísak Andri og Eggert Aron voru frískir á köntunum hjá Stjörnuliðinu og bjuggi bæði til færi fyrir samherja sína og komu sér sjálfir í fínar stöður. Jóhann Árni var góður inni á miðsvæðinu og Sindri Þór Ingimarsson í hjarta varnarinnar. 

Stjörnumenn sköpuðu þó nokkuð af góðum stöðum og fínum færum með léttleikandi samspili. Þar var Óli Valur í stóru hlutverki í hægri bakverðinum.  

Gísli Laxdal og Kaj Leó Í Bartalstovu skeinuhættastir í sóknarleiknum hjá Skagamönnum. Þá átti Steinar Þorsteinsson fínan leik sem sóknartengiliður. Jón Gísli Eyland Gíslason var svo með tíðar ferðir upp hægri vænginn úr bakverðinum og fyrirgjafir hans sköpuðu nokkrum sinnum usla í vörn Stjörnunnar.

Aron Bjarki Jósepsson og Alex Davey voru öflugir í miðri vörn Skagamanna en Davey fór meiddur af velli í upphafi seinni hálfleiks. Skoski hafsentinn lenti illa á bakinu og var þjáður þegar hann var borinn af velli. 

Ágúst Þór: Hefðum átt skilið að sigra í þessum leik

„Mér fannst við hafa öll tök á þessum leik og ég er svekktur að við höfum náð í stigin þrjú. Það var undarlegt að fara undir inn í hálfleikinn þar sem við vorum mun meira með boltann og vorum að skapa fullt af færum. Skagamenn refsuðu okkur hins vegar með fínni skyndisókn," sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik. 

„Við breyttum aðeins upplegginu í hálfleik og vorum skarpari í okkar sóknaraðgerðum í þeim seinni. Það skilaði sér og við náðum að skora tvö góð mörk. Að mínu viti var fátt sem benti til þess að þeir myndu skora þegar Kaj Leo jafnaði," sagði Ágúst Þór enn fremur. 

„Þrátt fyrir að niðurstaðan hafi verið svekkjandi þá er margt jákvætt sem við getum tekið með okkur í erfiðan leik á móti Leikni á sunnudaginn kemur. Við hefðum viljað öll stigin en fengum þó eitt," sagði hann um framhaldið. 

Jón Þór: Ánægður með liðsheildina og karakterinn

„Frammistaða okkar verðskuldaði klárlega stig og ég er mjög sáttur við að við höfum sýnt liðsheild og karakter eftir að við lentum undir í seinni hállfeik. Mér fannst krafturinn vera okkar megin eftir að við jöfnuðum og við vorum nær því að tryggja okkur sigurinn," sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari Skagamanna. 

„Það var ánægjulegt að sjá Oliver Stefánsson spila sinn fyrsta leik í þrjú ár. Oliver náði hálfleik í dag og við byggjum svo ofan á það í næstu leikjum. Það riðlaði aðeins leikskipulaginu að missa Davey af velli. Hann er þjáður í bakinu en við sjáum hvað setur með hann varðandi leikinn við Víking á sunnudaginn," sagði Jón Þór. 

„Það gladdi mig mikið að finna stuðninginn sem við fengum í þessum leik. Stuðningsmenn okkar voru farnir að syngja og tralla strax í upphitun og studdu okkur allan leikinn. Það var bara bikarúrslitastemming í þessum leik. Aflið á Skaganum er þannig þegar það er virkjað þá fleytir það okkur langt," sagði Skagamaðurinn. 

Af hverju skildu liðin jöfn?

Stjörnumenn réðu ferðinni lungann úr leiknum, voru meira með boltann og áttu fleiri skot á markið. Skagamenn voru aftur á móti hættulegir þegar þeir sóttu hratt. Fyrra mark þeirra kom eftir vel útfærða skyndisókn og það seinna eftir góða fyrirgjöf. Þórarinn Ingi Valdimarsson nagar sig líklega í handarbökin að hafa sofnað á verðinum þegar Kaj Leo skoraði jöfunarmark Skagans. 

Hverjir stóðu upp úr?

Jóhann Árni, Ísak Andri og Óli Valur voru ferskastir hjá Stjörnuliðinu. Það var svo ekki að sjá að Sindri Þór væri að spila sinn fyrsta leik í efstu deild. Það var síðan gaman að fylgjast með samvinnu Jóns Gísla og Kaj Leo á hægri kantinum í sóknarleik Skagamanna. 

Hvað gerist næst?

Liðin leika í annarri umferð Bestu-deildarinnar á sunnudaginn kemur. Stjarnan sækir Leikni heim í Breiðholtið og Skagamenn heimsækja Víkinga í Fossvoginn. 

Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira