Erlent

Um­sóknar­ferli Úkraínu um aðild að ESB farið af stað

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ursula von der Leyen, forseti Evrópuráðsins, sagði fyrr í mánuðinum að hún tæki fagnandi á móti umsókn Úkraínu um aðild að Evrópusambandinu.
Ursula von der Leyen, forseti Evrópuráðsins, sagði fyrr í mánuðinum að hún tæki fagnandi á móti umsókn Úkraínu um aðild að Evrópusambandinu. Vísir/Getty

Sérfræðingur í innanríkisráðuneyti Úkraínu greindi frá því í kvöld á samfélagsmiðlinum Telegram að Úkraína hefði hafið umsóknarferli um aðild að Evrópusambandinu.

Greint er frá málinu í Washington Post og vitnað í Anton Gerashchenko, ráðgjafa í innanríkisráðuneyti Úkraínu, en hann sagði frá því á samfélagsmiðlinum Telegram að búið væri að fylla út spurningalista sem hluta af því ferli að Úkraína gerist formlega umsóknarþjóð um aðild að Evrópusambandinu. 

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, skrifaði í lok febrúar undir formlega umsókn í Evrópusambandið. Hann sagði þá að markmið Úkraínumanna væri að sameinast Evrópu og vera á sama stalli og önnur ríki heimsálfunnar.

Fyrr í apríl sagði Ursula von der Leyen, forseti Evrópuráðsins, að hún tæki fagnandi á móti umsókn frá Úkraínu um aðild að sambandinu. Sagði hún að fyrsta skrefið væri að fylla út í spurningalista sem nú hefur verið gert. Sagði hún einnig að venjulega tæki það ár að mynda sér skoðun á máli sem þessu en hún héldi að núna myndi það aðeins taka nokkrar vikur.

„Við munum flýta ferlinu eins og hægt verður um leið og við tryggjum að öll skilyrði verða uppfyllt. Við erum með ykkur þegar ykkur dreymir um Evrópu. Úkraína á heima í Evrópufjölskyldunni,“ sagði Ursula von der Leyen.

Ef Úkraína yrði eitt af Evrópusambandsríkjunum myndi það styrkja pólitísk og fjárhagsleg tengsl þeirra við önnur Evrópuríki en Selenskí forseti hefur viðurkennt að ólíklegt sé að Úkraína gerist aðili að NATO í ljósi þess að Rússar líti á það sem hótun stækki hernaðarbandalagið í austurhluta Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×