Enski boltinn

Stuðningsmenn United ætla að bíða fyrir utan Old Trafford

Sindri Sverrisson skrifar
Frammistaða Cristiano Ronaldo og félaga hefur verið langt undir væntingum undanfarið. Stór hluti stuðningsmanna United kennir eigendum félagsins um.
Frammistaða Cristiano Ronaldo og félaga hefur verið langt undir væntingum undanfarið. Stór hluti stuðningsmanna United kennir eigendum félagsins um. Getty

Til stendur að senda bandarískum eigendum Manchester United, Glazer-fjölskyldunni, skýr skilaboð um helgina um að hún megi hypja sig á brott hætta afskiptum af félaginu.

Stuðningsmenn United hafa boðað til mótmæla á laugardaginn þegar United tekur á móti Norwich í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Stuðningsmannahópurinn The 1958 efnir til mótmælagöngu sem mun enda á Old Trafford en þar ætla stuðningsmennirnir svo að bíða í 17 mínútur áður en þeir fara inn á leikvanginn.

Með þessu á að mótmæla eignarhaldi Glazer-fjölskyldunnar sem hefur átt félagið í 17 ár.

United tapaði gegn fallbaráttuliði Everton um síðustu helgi og er nú sex stigum frá sæti í Meistaradeild Evrópu þegar liðið á aðeins sjö leiki eftir á tímabilinu.

Áætlanir um mótmælin hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum með skilaboðum um að „Ekkert breytist nema að höfuð snáksins sé fjarlægt. Þetta er rotið og byrjar á toppnum eins og í allri annarri starfsemi. Félagið er í tómu tjóni svo við verðum að bregðast við og vekja fólk aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×