Íslenski boltinn

Fimm skiptingar í íslenskum fótbolta í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Tilgangurinn með því að leyfa fimm skiptingar var í fyrstu að minnka meiðslahættu leikmanna vegna uppsafnaðs leikjaálags af völdum kórónuveirufaraldursins.
Tilgangurinn með því að leyfa fimm skiptingar var í fyrstu að minnka meiðslahættu leikmanna vegna uppsafnaðs leikjaálags af völdum kórónuveirufaraldursins. vísir/Hulda Margrét

Í íslenskum fótbolta verður heimilt að gera fimm skiptingar í stað þriggja á keppnistímabilinu í ár, líkt og í fyrra og árið 2020.

Stjórn KSÍ samþykkti þetta á fundi sínum í vikunni. Um er að ræða bráðabirgðaákvæði fyrir efstu deildir karla og kvenna, 1. deild karla og bikarkeppni KSÍ. Í öðrum deildum á Íslandi er varanlega reglan sú að fimm skiptingar séu leyfðar.

FIFA breytti reglum um skiptingar til að minnka álag á leikmönnum vegna þéttrar leikjadagskrár af völdum kórónuveirufaraldursins árið 2020, og heimilaði fimm skiptingar. Mismunandi er hvaða leið knattspyrnusambönd hafa farið en enska úrvalsdeildin samþykkti til að mynda fyrir skömmu að hafa fimm skiptingar á næstu leiktíð.

Þó að heimilt sé að gera fimm skiptingar má hvort lið aðeins stöðva leikinn þrisvar til að gera skiptingar. Einnig er hægt að nota leikhlé til að gera skiptingu. Sé leikur framlengdur má hvort lið nota einn varamann til viðbótar og stöðva leikinn einu sinni til að skipta honum inn á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×