Enski boltinn

Hrósaði bæði leik­mönnum og stuðnings­fólki Palace eftir magnaðan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrick Vieira fagnar með Conor Gallagher.
Patrick Vieira fagnar með Conor Gallagher. Craig Mercer/Getty Images

„Ég er mjög stoltur. Við spiluðum frábærlega. Við vörðumst vel og nýttum færin okkar,“ sagði sigurreifur Patrick Vieira eftir magnaðan 3-0 sigur Crystal Palace á Arsenal fyrr í kvöld.

Lærisveinar Vieira fóru illa með hans fyrrum lið í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hinn 45 ára gamli Frakki var því eðlilega í sjöunda himni er hann ræddi við fjölmiðla eftir leik.

„Við skoruðum á mikilvægum augnablikum í leiknum. Við þurftum að spila vel sem lið og við gerðum það, sem er mjög ánægjulegt. Við vildum setja mikla pressu á þá og andrúmsloftið á leikvangnum leyfði okkur að taka slíkar áhættur. Við vorum mjög klókir, vörðumst frá fremsta manni og nýttum færin vel.“

„Hjá þessu félagi snýst allt um að styðja liðið og þegar við erum á heimavelli finnum við fyrir því. Leikmennirnir voru þreyttir en andrúmsloftið og stuðningsfólkið gerir gæfumuninn. Orkan sem Jean-Philippe Mateta kemur með hjálpar liðinu og fær aðra til að gera slíkt hið sama. Menn neyðast til að fylgja honum. Hann er frábær leikmaður. Mikið af fólki talar um mörkin sem hann hefur skorað en ástríðan og vinnusemin sem hann sýnir á hverjum degi er einnig mjög jákvæð fyrir liðið.“

„Við þurfum að ná stöðugleika í frammistöður okkar og úrslit. Það eru spennandi leikir framundan þangað til tímabilið klárast og við þurfum að spila jafn vel þar og í kvöld,“ sagði Vieira að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×