Vieira gerði fyrrum liði sínu skrá­veifu í bar­áttunni um Meistara­deildar­sæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Crystal Palace fagna þriðja marki sínu í leiknum.
Leikmenn Crystal Palace fagna þriðja marki sínu í leiknum. Rob Newell/Getty Images

Lærisveinar Patrick Vieira í Crystal Palace gerðu sér lítið fyrir og pökkuðu Arsenal saman í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni, lokatölur 3-0.

Vieira gerði garðinn frægan með Arsenal fyrr á þessari öld en stýrir í dag liði Palace. Lið hans er með það að markmiði að enda í efri hluta deildarinnar á meðan Arsenal er í harði baráttu um fjórða sæti deildarinnar.

Arsenal þurfti allavega stig í kvöld til að komast upp fyrir nágranna sína og erkifjendur í Tottenham Hotspur en þegar öllu var á botninn hvolft áttu Skytturnar aldrei möguleika í kvöld.

Jean-Philippe Mateta kom heimamönnum yfir á 16. mínútu með kraftmiklum skalla. Jordan Ayew kom Palace í 2-0 átta mínútum síðar með skoti sem fór í stöng og inn. Staðan 2-0 í hálfleik og gestirnir í mikilli brekku.

Þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks fengu heimamenn vítaspyrnu. Wilfried Zaha fór á punktinn og skoraði af öryggi, staðan orðin 3-0 og reyndust það lokatölur leiksins.

Arsenal er því áfram í 5. sæti deildarinnar með 54 stig, líkt og Tottenham. Skytturnar eiga þó leik til góða. Palace fór með sigrinum upp í 9. sæti með 37 stig, líkt og Leicester City sem situr sæti neðar með lakari markatölu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira