Erlent

Or­ban gagn­rýndi Selenskí í sigur­ræðu sinni

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Victor Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árínu 2010.
Victor Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árínu 2010. EPA

Viktor Orban og Fidesz-flokkur hans unnu öruggan sigur í þingkosningunum í Ungverjalandi sem fram fóru í gær. Það er því ljóst að hann mun gegna stöðu forsætisráðherra í landinu, fjórða kjörtímabilið í röð.

Sigurræða Orbans hefur hlotið töluverða gagnrýni en þar virðist hann hæðast að Volodomir Selenskí forseta Úkraínu. Orban þykir hallur undir Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Selenskí hefur sjálfur gagnrýnt forætisráðherrann fyrir að vilja ekki gagnrýna Pútín og stríðsrekstur hans í Úkraínu.

Í sigurræðu sinni sagði Orban að allur heimurinn sjái nú að pólitík kristilegra íhaldsmanna og föðurlandsvina hafi farið með sigur af hólmi í Ungverjalandi.

Orban segir að með sigrinum sé verið að senda Evrópu skýr skilaboð um að þetta sé ekki fortíðin, heldur framtíðin. Þá sagði hann að allir eigi eftir að muna eftir þessum sigri því andstæðingarnir hafi verið svo margir.

Taldi Orban síðan upp andstæðinga sína og talaði um vinstrimenn heimafyrir, vinstrimenn í öðrum löndum, „möppudýrin í Brussel“ og forseta Úkraínu, sagði Orban og uppskar hlátrasköll frá stuðningsmönnum sínum, að því er segir í frétt Guardian

Fidesz-flokkurinn hlaut um 53 prósent atkvæða og bandalag sex stjórnarandstöðuflokka einungis um 35 prósent. Kosningaþátttaka var mikil, tæplega 69 prósent, en það er nærri jafnmikil þátttaka og í kosningunum 2018 þegar met var slegið.

Orban hefur í stjórnartíð sinni ítrekað lent upp á kant við Evrópusambandið þegar kemur að málum eins og fjölmiðlafrelsi, málefnum flóttafólks og samskiptum Ungverjalands og Rússlands. Þá hefur hann sætt gagnrýni fyrir óeðlileg afskipti af dómskerfinu og að hafa breytt kjördæmum til að hagnast sér og sínum flokki.


Tengdar fréttir

Sundrung innan sam­einaðrar stjórnar­and­stöðu og stefnir í enn einn sigur Orbans

Þingkosningar fara fram í Ungverjalandi á sunnudaginn þar sem bandalag sex ólíkra stjórnarandstöðuflokka reynir að binda enda á tólf ára valdatíð Fidesz-flokksins og forsætisráðherrann Victors Orban. Oft á tíðum hefur gengið erfiðlega hjá stjórnarandstöðunni að tala einum rómi í kosningabaráttunni og benda skoðanakannanir til að áframhald verði á stjórn Orbans.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.