Erlent

Borgarstjóranum sleppt eftir mót­mæli úkraínsks al­mennings

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rússaher hefur mætt mikilli mótspyrnu almennra borgara víða um Úkraínu.
Rússaher hefur mætt mikilli mótspyrnu almennra borgara víða um Úkraínu. EPA/SERGEI ILNITSKY

Rússneski herinn hefur sleppt borgarstjóra úkraínsku borgarinnar Slavútítsj, skammt frá Tjernóbyl í norðurhluta Úkraínu, eftir kröftug mótmæli íbúa.

Rússar hafa tekið völd í borginni og handtóku borgarstjórann, við lítinn fögnuð íbúa Slavútítsj. Fjöldi fólks kom saman á aðaltorgi borgarinnar, óvopnað, til þess að mótmæla handtöku Júrí Fomitsjev og veru rússneskra hersveita í bænum.

Samkvæmt Guardian reyndu hermenn að leysa upp mótmælin með því að skjóta upp í loft úr byssum sínum og nota hvellsprengjur. Það hafi hins vegar haft allt annað en tilætluð áhrif, og orðið þess valdandi að mótmælin urðu fjölmennari.

Að endingu hafi borgarstjóranum verið sleppt úr haldi og herinn gert samkomulag við borgina um að fara þaðan, ef íbúar myndu afhenda borgarstjóranum vopn sín. Þó var undanþága gerð fyrir þá sem eiga veiðiriffla.

Fomitsjev ku hafa sagt mótmælendum að með þessu vildu Rússar tryggja að enginn frá úkraínska hernum væri í borginni. Málið er enn eitt dæmi þeirrar miklu mótspyrnu sem rússneski innrásarherinn hefur mætt frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir rúmum mánuði síðan.


Tengdar fréttir

Öflugar loft­á­rásir gerðar á Lviv

Kröftugar loftárásir hafa verið gerðar á borgina Lviv í Úkraínu í dag. Sprengjurnar féllu mjög skammt frá borginni. Blaðamaður segir mikinn reykmökk svífa yfir og loftvarnarflautur óma hátt. Íbúar eru beðnir um að halda kyrru heima fyrir.

Óttast að borgin verði „næsta Mariu­pol“

Íbúar borgarinnar Chernihiv í vesturhluta Úkraínu eru hræddir um að árásir á borgina fari að versna til muna. Ástandið er ekki orðið jafn slæmt og í Mariupol en versnar ört. Matur er af skornum skammti og fjölmargir íbúar byrja daginn á því að bíða í röð eftir vatni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×