Erlent

Óttast að borgin verði „næsta Mariu­pol“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Á gervihnattamyndinni sjást olíutankar í borginni Chernihiv brenna á ógnarhraða.
Á gervihnattamyndinni sjást olíutankar í borginni Chernihiv brenna á ógnarhraða. EPA-EFE/MAXAR TECHNOLOGIES

Íbúar borgarinnar Chernihiv í vesturhluta Úkraínu eru hræddir um að árásir á borgina fari að versna til muna. Ástandið er ekki orðið jafn slæmt og í Mariupol en versnar ört. Matur er af skornum skammti og fjölmargir íbúar byrja daginn á því að bíða í röð eftir vatni.

„Í sprengjubyrgjunum, þar sem við bíðum á næturna, er aðeins talað um eitt; að Chernihiv, borgin okkar, verði næsta Mariupol,“ segir hinn 38 ára gamli Ihar Kazmerchak við AP fréttaveituna. Rafmagn er hvergi fáanlegt og þá er enginn hiti á íbúðarhúsum. Kazmerchak segir að apótek borgarinnar tæmist hratt.

Kazmerchak byrjar alla daga á því að bíða í röð eftir vatni en yfirvöld hafa skammtað íbúum drykkjarvatni síðustu daga: „Matarbirgðirnar eru að klárast og árásirnar og sprengirnarnar hætta ekki,“ segir hann.

Rússar eyðilögðu aðalsamgöngubrú Chernihiv í sprengjuárásum á miðvikudaginn og í gær sprengdu Rússar brú fyrir fótgangandi við borgina. Þeir hafa þannig lokað fyrir allar útgönguleiðir íbúa og torvelt er að koma matarbirgðum, lyfjum og öðrum nauðsynjum til íbúa í borginni.

Flóttamenn frá Chernihiv sem komust til Póllands í vikunni sögðu að sprengjur Rússa hafi jafnað að minnsta kosti tvo skóla í miðborginni við jörðu. Þá hafi Rússar einnig sprengt upp íþróttaleikvang, söfn, leikskóla og fjölmörg íbúðarhús. 


Tengdar fréttir

Uppgjafartónn og ofsóknaræði runnið á rússneska ráðmenn

Uppgjafartónn og ofsóknaræði er runnið á æðstu ráðamenn Rússlands sem segja Vesturlönd hafa sameinast um að gereyða Rússlandi. Vestrænir leiðtogar heita því að standa saman þar stríðinu ljúki með sneypuför Putins. Nú er talið að minnsta kosti þrjú hundruð manns hafi fallið í árás Rússa á leikhús í Mariupol.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×