Erlent

Full­yrða að Rússar hafi keyrt yfir her­foringja úr eigin röðum á skrið­dreka

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Að minnsta kosti sjö rússneskir herforingjar hafa fallið í innrásinni.
Að minnsta kosti sjö rússneskir herforingjar hafa fallið í innrásinni. Getty/Clarke

Vestrænir embættismenn telja að uppreisnarsveit rússneskra hermanna hafi keyrt yfir herforingja úr eigin röðum á skriðdreka. Atvikið sé merki um að starfsandi og samstaða innan hers Rússa fari sífellt versnandi.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur gengið mun hægar en rússnesk stjórnvöld höfðu gert ráð fyrir í upphafi. Mannfall Rússa er mikið Bandaríkjamenn telja að minnsta kosti 7 þúsund rússneskir hermenn hafi fallið í innrásinni.

Úkraínski blaðamaðurinn Roman Tsymbaliuk greindi upphaflega frá því að rússneskir hermenn hafi keyrt yfir herforingja sinn, eftir að ríflega 50 prósent hermanna í herdeildinni hafi fallið í innrás í Makariv, vestur af Kyiv.

Þá héldu aðrir miðlar því fram að foringinn hafi látist af sárum sínum eftir að keyrt var yfir hann en í frétt Guardian um málið segir að enn hafi ekki tekist að staðfesta andlát herforingjans.

Embættismennirnir drógu fullyrðingar sínar til baka fyrr í dag vegna misvísandi upplýsinga á samfélagsmiðlum en segja þó alveg ljóst að keyrt hafi verið yfir herforingjann. Lykilatriðið sé að herforinginn hafi verið fórnarlamb uppreisnar rússneska hersins, en enn eigi eftir að staðfesta hvort herforinginn sé lífs eða liðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×