Erlent

Ísraelar segja viðræður um vopnahlé þokast í rétta átt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Átökin hafa nú þegar kostað þúsundir manns lífið.
Átökin hafa nú þegar kostað þúsundir manns lífið. epa/Vasyl Zhlobsky

Axios hefur eftir háttsettum ísraelskum embættismönnum að viðræður milli Rússa og Úkraínumanna um vopnahlé þokist í rétta átt. Báðir eru sagðir hafa slakað á í afstöðu sinni en utanríkisráðherrar ríkjanna funda í Tyrkalandi á morgun.

Heimildarmennirnir, sem Axios segir þekkja vel til viðræðanna, segja breytingu hafa átt sér stað á síðustu 24 klukkustundum; Rússar hafi sagst aðeins vilja afvopna Donbas-héruðin og að Úkraínumenn séu ef til vill reiðubúnir til að hverfa frá möguleikanum á inngöngu í Nató.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafði áður gert það að kröfu að Úkraína afvopnaðist algjörlega og ýjaði að því að koma þyrfti á nýrri stjórn í landinu. Talsmaður stjórnvalda í Moskvu sagði hins vegar í morgun að Rússar gerðu ekki kröfu um að Úkraínustjórn færi frá.

Ísraelarnir segja að það verði erfitt fyrir Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, að sætta sig við úrslitakosti Pútín en á hinn bóginn feli þeir ekki lengur í sér stjórnarskipti né neitt sem ógnar fullveldi landsins.

Selenskí eigi tvo kosti í stöðunni; að kyngja ósigri varðandi Donbas-héruðin en binda enda á stríðsátökin eða hafna tilboði Rússa og taka áhættuna á þeim hörmulegu afleiðingum sem stríðið gæti haft í för með sér fyrir Úkraínumenn.

Axios hefur eftir heimildarmönnum sínum að vesturveldin hyggist ekki þrýsta á Selenskí að velja annan kostinn fram yfir hinn en vara við því að ef sátt næst ekki nú, muni átökin taka nýja og grimmilegri stefnu.

Ef marka má fregnir frá Úkraínu liggur nokkuð á að aðilar nái saman en rafmagn er farið af Tjernobyl-kjarnorkuverinu og hætta á mengun ef viðgerð fer ekki fram innan 48 klukkustunda.

Umfjöllun Axios.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×