Enski boltinn

Eigandi NFL-liðs í New York hefur áhuga á að kaupa Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert „Woody“ Johnson hefur verið annar eigandi NFL-liðsins New York Jets frá aldarmótum. Hann á liðið með bróður sínum.
Robert „Woody“ Johnson hefur verið annar eigandi NFL-liðsins New York Jets frá aldarmótum. Hann á liðið með bróður sínum. Getty/Rich Graessle

Robert „Woody“ Johnson, eigandi NFL-liðsins New York Jets er sagður ætla að koma með tilboð í enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea.

ESPN hefur heimildir fyrir því að „Woody“ sé að undirbúa tilboð. Hann hefur þegar haft samband við Raine Group sem sér um söluna.

Johnson gæti því orðinn enn einn eigandinn af bæði NFL-liðið og liði í ensku úrvalsdeildinni.

Stan Kroenke, eigandi NFL-meistara Los Angeles Rams, á líka Arsenal, og Glazer-fjölskyldan sem á Manchester United á einnig Tampa Bay Buccaneers. Þá á Jed York, eigandi San Francisco 49ers, minnihluta í Leeds United. Þá má ekki gleyma Shad Khan, eiganda Fulham, sem á líka Jacksonville Jaguars en Fulham er á góðri leið með að endurheimta sætið sitt í ensku úrvalsdeildinni.

Johnson þekkir víst ágætlega til Chelsea og ensku úrvalsdeildarinnar því hann bjó um tíma í London og vann þar sem sendiherra Bandaríkjanna.

Johnson er sagður hafa heillast að félaginu og stuðningsmönnum þess og gerir sér vel grein fyrir mikilvægi ensku úrvalsdeildarinnar fyrir ensku þjóðarsálina.

Roman Abramovich hefur átt Chelsea síðan 2003 en þarf nú að selja félagið vegna eftirmála innrásar Rússa í Úkraínu. Roman er einn af rússnesku olíukóngunum með sterk tengls við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Abramovich sjálfur hefur þó alltaf neitað að vera eitthvað tengdur Pútín.

Abramovich er sagður vilja fá í kringum þrjá milljarða punda fyrir félagið sem gera 528 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×