Erlent

Rússar loka á erlenda fjölmiðla

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Samúel Karl Ólason skrifa
Lokað hefur verið fyrir margar erlendar fréttaveitur sem flytja fréttir á rússnesku í Rússlandi.
Lokað hefur verið fyrir margar erlendar fréttaveitur sem flytja fréttir á rússnesku í Rússlandi. Vísir

Yfirvöld í Rússlandi hafa lokað vefsíðum BBC, Voice of America, Radio Free Europe, Deutsche Welle og Meduza. Fjölmiðlarnir eru allir sakaðir um að dreifa „falsfréttum“ um innrás Rússa í Úkraínu.

Blaðamaður Financial Times segir að um sé að ræða svo gott sem alla erlenda fjölmiðla sem skrifa fréttir á rússnesku í Rússlandi. 

Þegar hefur nokkrum rússneskum fjölmiðlum verið lokað frá því innrásin hófst og á undanförnum mánuðum og árum. Blaðamenn í Rússlandihafa margir hverjir yfirgefið landið nú þegar. Þar á meðal eru erlendir blaðamenn sem segja mikla óreiðu á landamærum Rússlands. 

Frá því að lokað var fyrir BBC í Rússlandi í morgun hefur fréttastofan deilt frétt frá árinu 2019 á Twitter síðu sinni þar sem útlistað er hvernig fólk geti komist inn á síður sem hefur verið lokað fyrir í ákveðnum ríkjum. Fréttastofan minnir á að hægt sé að opna vefsíðu hennar á „huldunetinu“ svokallaða (e. dark web). 

Þá hefur fréttastofan deilt hlekkjum á vefsíðu sem veitir fólki strax aðgengi að fréttasíðunni á hulduvefnum samstundis, sé þegar búið að loka fyrir aðgengi að fréttasíðunni. 

Rússneska Dúman samþykkti þá í morgun frumvarp til laga um að hver sá sem deili „falsfréttum“ af stríðinu í Úkraínu eigi yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsisvist. Rússar mega nú hvorki tala um stríðið sem stríð, innrás eða árás, enda vilja rússnesk stjórnvöld meina að um „sértæka hernaðaraðgerð“ sé að ræða til að koma stjórnvöldum í Úkraínu, sem hylmi yfir nasista og dópista, frá völdum. 

Þá hafa rússneskir þingmenn gert það ólöglegt að kalla eftir því að Rússland verði beitt refsiaðgerðum. Það var gert í morgun en Rússar hafa verið beittir umfangsmiklum refsiaðgerðum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Samkvæmt rússnesku fréttaveitunni Tass, sem er í eigu rússneskra yfirvalda, verður hægt að refsa fólki með sektum eða allt að þriggja ára vist í fangelsi eða vinnubúðum. 


Tengdar fréttir

Segir Rússa vilja endurtaka Tjsernóbíl-slysið

Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu sakar Rússa um að hafa viljandi skotið sprengjum á kjarnorkuver í nótt. Hann segir þá hafa verið fullmeðvitaða um hætturnar sem því fylgja og sakar þá um að vilja endurtaka harmleikinn í Tsjernóbíl. 

„Þetta er allt af völdum eins brjálaðs manns“

Vinkonur frá Úkraínu og Rússlandi sem búa í Hveragerði stóðu hlið við hlið í mótmælum fyrir utan rússneska sendiráðið í Reykjavík í morgun. Þær segja stríðið vera þeim ákaflega þungbært.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.