Erlent

Rússar í fimmtán ára fangelsi segi þeir „falsfréttir“ af stríðinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rússar gætu átt von á fimmtán ára fangelsisvist segi þeir „falsfréttir“ af stríðinu í Úkraínu.
Rússar gætu átt von á fimmtán ára fangelsisvist segi þeir „falsfréttir“ af stríðinu í Úkraínu. Getty/Russian State Duma

Rússar eiga yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisvist gerist þeir sekir um að flytja falsfréttir um stríð þeirra í Úkraínu. Þetta samþykkti neðri deild rússneska þingsins einróma í morgun. 

Þriðja umræða um frumvarpið fór fram í rússneska þinginu í morgun áður en hún var svo samþykkt. Samkvæmt þessum nýju lögum gætu Rússar átt yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsisvist dreifi þeir falsfréttum, sem hafi alvarleg áhrif, af innrás Rússa í Úkraínu. Fréttastofa Reuters greinir frá samþykktinni. 

Rússar mega nú hvorki tala um stríðið sem stríð, innrás eða áras, enda vilja rússnesk stjórnvöld meina að um „sértækja hernaðaraðgerð“ sé að ræða til þess að koma stjórnvöldum, sem hylmi yfir nasista og dópista, frá völdum. Þá sé hernaðaraðgerðin auk þess til þess gerð að stöðva þjóðarmorðið sem úkraínsk stjórnvöld hafi framið á íbúum austurhéraða Úkraínu undanfarin ár. Það ber að taka fram að engar haldbærar sannanir liggja fyrir um þessar ásakanir Rússa.

Í gær var fjölmiðlum í Rússlandi lokað fyrir að fylgja ekki skipunum frá Kreml um umfjöllun um innrás Rússlands í Úkraínu og margir rússneskir blaðamenn hafa nú yfirgefið landið. Þar á meðal eru erlendir blaðamenn sem segja mikla óreiðu á landamærum Rússlands. Sögusagnir hafa verið á kreiki um það að Vladimír Pútín Rússlandsforseti ætli að setja herlög og loka landamærunum. Þá óttast fólk að vera kvatt í herinn og þvingað til að taka þátt í hernaði.

Þá hafa rússneskir þingmenn lagt fram frumvarp sem snýr að því að þvinga fólk, sem hefur verið handtekið fyrir að mótmæla innrásinni í Úkraínu, í rússneska herinn. 

Þingmennirnir sem lögðu fram frumvarpið tilheyra minnihluta í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins. Kevin Rothrock blaðamaður sagðist í gær telja ólíklegt að tillagan verði samþykkt. Þess í stað sé frumvarpinu ætlað að hræða rússneskan almenning og koma í veg fyrir mótmæli gegn innrásinni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×