Enski boltinn

Maddison og Vardy komu Leicester aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
James Maddison skoraði fyrra mark leiksins í kvöld.
James Maddison skoraði fyrra mark leiksins í kvöld. Alex Livesey/Getty Images

James Maddison og Jamie Vardy sáu um markaskorun Leicester þegar liðið vann 2-0 útisigur gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Burnley hafði verið á góðu skriði í deildinni fyrir leik kvöldsins og hafði aðeins tapað einum af seinustu sjö leikjum sínum. Stig í kvöld hefði lyft liðinu upp úr fallsæti.

Að sama skapi hafði gengi Leicester seinustu vikur ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir. Liðið var án sigurs í seinustu fjórum leikjum sínum og var farið að nálgast fallbaráttuna óþægilega mikið.

Það var því mikill léttir fyrir liðið þegar James Maddison skoraði fyrra mark leiksins gegn Burnley á 82. mínútu eftir stoðsendingu frá Jamie Vardy, áður en sá síðarnefndi tryggði liðinu 2-0 sigur átta mínútum síðar.

Leicester situr nú í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 30 stig eftir 24 leiki, níu stigum meira en Burnley sem situr í 18. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×