Erlent

Öryggiráðið fundar um stöðuna: Sendir her­lið inn í Úkraínu og ber fyrir sig friðar­gæslu

Árni Sæberg skrifar
Forseti Rússlands hefur ákveðið að senda herlið inn í Úkraínu.
Forseti Rússlands hefur ákveðið að senda herlið inn í Úkraínu. Vísir/EPA

Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur fyrirskipað að herlið fari inn í Luhansk og Donetsk. Hann segir því ætlað að sinna friðargæslu. Þegar eru um 190 þúsund rússneskir hermenn við landamæri Úkraínu. Nýjustu fréttir birtast í vaktinni hér að neðan.

Í kvöld viðurkenndi Pútín sjálfstæði þess sem hann kallar alþýðulýðveldið Donetsk og alþýðulýðveldið Luhansk. 

Skömmu seinna fyrirskipaði hann að rússneskir hermenn yrðu sendir inn í héröðin til að sinna friðargæslu, að því er segir í frétt The Guardian.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar nú um stöðuna. 

Fundur er fyrir opnum tjöldum eftir allt saman en upphaflega höfðu Rússar ætlað að hefta aðgengi að honum, en þeir fara með forsæti í nefndinni.

Fylgjast má með fundinum í spilaranum hér að neðan:

Þvinganir tilkynntar á morgun

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja funduðu í tíu klukkutíma í dag þar sem mögulegar þvinganir gegn Rússum voru ræddar. Enn er ekki einhugur um refsiaðgerðir en Josep Borrell, yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu að hann muni leggja aðgerðapakka fyrir ráðherrana á morgun. Þeir munu þurfa að samþykkja hann einróma ef eitthvað á að verða af refsiaðgerðum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti staðfesti í samtali við Vólódómír Selenskí, forseta Úkraínu, að Bandaríkin myndu bregðast hratt og örugglega við ákvörðun Pútíns og beita Rússa þvingunum, að því er segir í tilkynningu Hvíta hússins.

Þá segir að Biden fordæmi að Pútín hafi viðurkennt sjálfstæði þess sem hann kallar alþýðulýðveldið Donetsk og alþýðulýðveldið Luhansk.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fordæmir aðgerðir Pútíns og segir þær einfaldlega ekki ásættanlegar. Hún segir viðurkenningu Rússa á sjálfstæði héraðanna klárt brot á alþjóðalögum og landhelgi Úkraínu.

„Rússland verður að snúa aftur að samningaborðinu og virða alþjóðlegar skuldbindingar sínar,“ segir hún á Twitter.

Utanríkisráðherra Bretlands tilkynnti á Twitter í kvöld að nýjar þvinganir gegn Rússum verði tilkynntar á morgun vegna brots þeirra á alþjóðalögum og fullveldi og landhelgi Úkráinu.

Þá segir hann Bretland muni samræma aðgerðir sínar með Evrópusambandinu.

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að viðurkenningu Pútíns á sjálfstæði héraðanna kalla á hröð og harkaleg viðbrögð. „Við munum gera viðeigandi ráðstafanir í samráði viðbandamenn okkar,“ segir hann á Twitter.

Þá segir hann að ríkjum heimsins beri engin skylda til að viðurkenna sjálfstæði ríkja sem komið er á með ofbeldi eða hótunum þar um.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×