Íslenski boltinn

Hildi­gunnur Ýr æfði með Dan­merkur­meisturum HB Köge

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hildigunnur Ýr æfði með HB Köge í síðustu viku.
Hildigunnur Ýr æfði með HB Köge í síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Stjörnustúlkan Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir var við æfingar hjá Danmerkurmeisturum HB Köge í síðustu viku. Lék hún meðal annars tvo æfingaleiki með liðinu sem stefnir á að verja titil sinn.

Hin 19 ára gamla Hildigunnur Ýr er uppalin hjá Stjörnunni í Garðabæ og hefur þrátt fyrir ungan aldur verið í stóru hlutverki undanfarin ár. Hún skoraði 8 mörk í 17 leikjum síðasta sumar, alls hefur hún skorað 14 mörk í 39 leikjum fyrir Stjörnuna í efstu deild.

Á Facebook-síðu Stjörnunnar kemur fram að Hildigunnur Ýr hafi æft og spilað með Danmerkurmeisturum HB Köge í síðustu viku en liðið er nú í óðaönn að undirbúa sig fyrir úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar.

Þá var HB Köge í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en liðið var í riðli með Evrópumeisturum Barcelona, stórliði Arsenal og Hoffenheim frá Þýskalandi.

Framherjinn ungi er ekki eini Íslendingurinn sem hefur æft með liðinu í vetur en landsliðskonan Elísa Viðarsdóttir æfði með HB Köge og Rosengård fyrir áramót áður en hún samdi að nýju við Íslandsmeistara Vals.

Hildigunnur Ýr á að baki 15 leiki fyrir yngri landslið Íslands og hefur skorað í þeim 11 mörk. Hver veit nema hún verði farin að raða inn mörkum í dönsku úrvalsdeildinni áður en langt um líður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×