Erlent

Saka hvora aðra um að brjóta gegn vopnahléi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, í nýlegri heimsókn til hermanna.
Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, í nýlegri heimsókn til hermanna. EPA/Forsetaembætti Úkraínu

Stjórnarher Úkraínu segir aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins hafa skotið sprengjum að leikskóla. Aðskilnaðarsinnarnir, sem eru studdir af Rússlandi, segja stjórnarherinn hafa skotið sprengjum á þá fyrst.

Gífurleg spenna er á svæðinu þar sem Rússar hafa komið fyrir um 150 þúsund hermönnum að landamærum Úkraínu og ráðamenn í Atlantshafsbandalaginu hafa varað við því að Rússar gætu gert innrás í Úkraínu hvenær sem er.

Þá hafa ráðamenn í Úkraínu og víðar varað við því að Rússar gætu notað einhvers konar atvik á yfirráðasvæðum aðskilnaðarsinna sem átyllu til að gera innrás.

Rússar gerðu innrás í Úkraínu árið 2014 og innlimuðu Krímskaga af landinu. Þá hafa þeir einnig staðið þétt við bakið á aðskilnaðarsinnum sem lögðu undir sig stór svæði í Úkraínu sama ár. Það hafa þeir gert með því að útvega aðskilnaðarsinnum vopn og rússneskir hermenn hafa sömuleiðis barist með þeim.

Yfirvöld í Kænugarði segja um fimmtán þúsund manns hafa fallið í átökunum.

Vopnahlé var gert árið 2015 en eins og bent er á í frétt Reuters hefur Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu tilkynnti fjölda brota á vopnahléinu á degi hverjum. Sprengjum eins og þeim sem lentu við leikskólann er reglulega varpað í sitthvora áttina yfir víglínuna.

Rússar hafa veitt fjölmörgum íbúum á yfirráðasvæðum aðskilnaðarsinna vegabréf og Dúman, neðri deild rússneska þingsins, samþykkti nýverið ályktun um að Pútín viðurkenndi sjálfstæði þessara svæða í Úkraínu.

Kreml hefur gefið í skyn að það standi ekki til.

Ráðamenn í Rússlandi hafa sagst vera að fækka hermönnum við landamæri Úkraínu. Ráðamenn í vesturveldunum svokölluðu segjast ekki hafa séð ummerki þess. Þvert á móti segja Bandaríkjamenn að Rússar séu að senda sjö þúsund hermenn til viðbótar til landamæranna og að koma upp sjúkrahúsaðstöðu við landamærin.

Varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins komu saman á fundi í Brussel í gær. Þar komust þeir að þeirri niðurstöðu að auka varnir bandalagsins í ljós þess sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kallaði viðleitni Rússa til að grafa undan grunnstoðum evrópsk öryggis til áratuga.

Snýst um framtíð Úkraínu

Rússar hafa í stuttu máli sagt krafist þess að Úkraínu verði meinaður aðgangur að Atlantshafsbandalaginu og að aðildarlöndum í Austur-Evrópu verði vísað úr bandalaginu. Þeim kröfum var fljótt hafnað. Vesturveldin svokölluðu hafa þó sagst tilbúin til viðræðna við Rússa um vopn og viðbúnað í Evrópu.

Blaðamaður BBC spurði Vólódómír Selenskí, forseta Úkraínu, að því í morgun hvort Úkraínumenn væru tilbúnir til að sleppa tökum á draumnum um aðild að NATO vegna krafna Rússa.

Forsetinn sagði þetta ekki snúast drauma. Úkraníumenn hafðu misst fimmtán þúsund manns.

„Þetta snýst ekki um NATO. Þetta snýst um framtíð okkar fólks.“

Hann sagði deiluna snúast um sjálfstæði Úkraínu og rétt Úkraínumanna til að taka eigin ákvarðanir um framtíð ríkisins.


Tengdar fréttir

Sjá ekki að Rússar fækki hermönnum

Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins segjast ekki sjá ummerki þess að Rússar séu að draga úr viðbúnaði við landamæri Úkraínu. Ráðamenn í Rússlandi segjast vera að fækka hermönnum á svæðinu en þeim yfirlýsingum hefur verið tekið með tortryggni.

Glugginn til innrásar muni líklega lokast í þessari viku

Prófessor við Háskóla Íslands segir enn mikla óvissu um stöðu Rússlands og Úkraínu þrátt fyrir nýjustu yfirlýsingar Rússa. Glugginn til innrásar muni að öllum líkindum lokast í þessari viku en Rússar muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tapa ekki stöðu sinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.