Erlent

Minnst 94 farist í brasilísku borginni Petrópolis

Eiður Þór Árnason skrifar
Íbúar og björgunarfólk leita að fólki sem varð undir skriðunni.
Íbúar og björgunarfólk leita að fólki sem varð undir skriðunni. Ap/Silvia Izquierdo

Minnst 94 hafa farist í skriðuföllum og skyndiflóðum í brasilísku borginni Petrópolis eftir að fossandi rigning skall á svæðinu sem staðsett er í fjallgarði norður af Rio de Janeiro.

Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í borginni þar sem fjöldi húsa í hlíðum eru að hruni komin. Talið er að um áttatíu heimili hafi orðið fyrir skemmdum í því hverfi sem hefur farið einna verst út úr hamförunum.

Myndbönd sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum sýna mikla eyðileggingu og bíla fljóta um götur borgarinnar. Björgunarteymi leita nú að eftirlifendum í aurnum og hafa íbúar líkt stöðunni við stríðsástand, að því er fram kemur í frétt BBC

Viðbragðsaðilar fjarlægja lík í Petropolis á miðvikudag.Ap/Silvia Izquierdo

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur gefið út að stjórnvöld muni veita íbúum skjóta aðstoð en hann er nú staddur í opinberri heimsókn í Rússlandi.

Yfir 180 hermenn hafa verið sendir á svæðið auk sérhæfðra leitarteyma. Petrópolis er vinsæll ferðamannastaður en staðsetning borgarinnar gerir það að verkum að skriðuföll hafa ítrekað leikið íbúa grátt. Þegar verst lét árið 2011 fórust yfir 900 manns í Petrópolis og nærliggjandi borgum vegna aurskriða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×