Erlent

Öldungadeild nálægt því að samþykkja „móður allra refsiaðgerða“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hermenn við landamærin í Úkraínu.
Hermenn við landamærin í Úkraínu. Getty Images

Öldungadeildin í Bandaríkjunum er nálægt því að samþykkja harðar aðgerðir gegn Rússum vegna spennu á landamærum Rússlands og Úkraínu. Öldungadeildarþingmenn telja að Vladimir Pútín Rússlandsforseti muni ekki hætta aðgerðum á landamærum, nema vesturveldin svari.

Spennan hefur verið mikil undanfarnar vikur á landamærum Rússlands og Úkraínu og ýmislegt bendir til þess að Rússar séu að undirbúa innrás. Um 100.000 hermenn hafa safnast saman við landamærin þar sem Rússar hafa meðal annars komið upp birgðum af blóði fyrir særða hermenn ef koma skyldi til átaka.

Öldungadeildarþingmenn í utanríkismálanefnd segjast vera mjög nálægt því að grípa til refsiaðgerða gegn Rússum. Aðgerðirnar hafa þeir nefnt “the mother of all sanctions,” á ensku en á íslensku mætti þýða þessi orð sem „móður allra refsiaðgerða.“ Þar segja þingmennirnir að Pútín verði engin grið gefin.

Segir mikilvægt að bregðast við

Öldungadeildarþingmaðurinn Rob Portman var ómyrkur í máli og telur líklegt að koma muni til átaka: „Það eina sem Pútín hefur tekist er að styrkja bönd vestrænna þjóða. Þær fylgjast með ástandinu og hugsa: „Þetta má ekki gerast, við munum ekki líða þetta,“.“

Portman heldur áfram: „Það er raunverulegur möguleiki á hörðum átökum og raunar blóðbaði í fyrsta skipti í áttatíu ár, nema að við stöndum saman og bregðumst við,“ sagði Portman og aðrir öldungadeildarþingmenn tóku í sama streng.

Bretar eru meðal þeirra þjóða sem íhuga að grípa til aðgerða. Þeir íhuga nú að tvöfalda herafla sinn í Austur-Evrópu vegna átakanna við landamærin í Úkraínu. Þeir hafa lýst því yfir að öllum tilraunum Rússa til innrásar veðri mætt með hörðum viðskiptaþvingunum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur einnig varað Úkraínumenn við að það sé „greinilegur möguleiki“ á að Rússar muni ráðast inn í landið í næsta mánuði. The Guardian greindi frá.


Tengdar fréttir

Rússar ræða að senda vopn til Úkraínu

Vladimir Vasilyev, leiðtogi stjórnmálaflokksins Sameinað Rússland, sem er flokkur Vladimírs Pútin, forseta, kallaði eftir því í dag að Rússar útveguðu aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu vopn og birgðir. Það ætti að gera til að verja aðskilnaðarsinnana gegn her Úkraínu og vegna vopnasendinga til Úkraínu úr vestri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×