Íslenski boltinn

Qvist til liðs við Breiða­blik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikkel Qvist og Viktor Karl Einarsson verða liðsfélagar næsta sumar.
Mikkel Qvist og Viktor Karl Einarsson verða liðsfélagar næsta sumar. Vísir/Hulda Margrét

Danski varnarmaðurinn Mikkel Qvist hefur samið við Breiðablik og mun leika með liðinu næsta sumar. Hann kemur til félagsins frá AC Horsens í Danmörku.

Hinn hávaxni Mikkel Qvist þekkir vel til hér á landi en hann lék með KA sumarið 2020 og svo síðari hluta síðasta tímabils.

„Mikkel er örvfættur varnarmaður og er hann 2,03 á hæð. Hann hefur staðið sig vel með KA mönnum og var lykilmaður í sterkri vörn norðanpilta undanfarin tvö ár," segir í tilkynningu Blika.

Þá er hinn 28 ára gamli Qvist þekktur fyrir sín löngu innköst en hann getur grýtt boltanum endanna á milli virðist vera.

Hvort þetta þýði að Breiðablik sé að íhuga að fara í þriggja manna vörn á næstu leiktíð verður ósagt látið en þeir Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson stóðu sig með prýði í hjarta varnarinnar á síðustu leiktíð. 

Þá binda Blikar miklar vonir við að Elfar Freyr Helgason sé loks búinn að ná sér af meiðslum.

Breiðablik endaði í 2. sæti Pepsi Max-deildar karla á síðustu leiktíð eins og frægt er orðið. Deildin mun fá nýtt nafn fyrir komandi tímabil og er ljóst að Blikar ætla sér þann stóra í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×