Erlent

Litháar bogna undan þrýstingi Kínverja

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá ræðismannsskrifstofu Taívans í Vilníus.
Frá ræðismannsskrifstofu Taívans í Vilníus. EPA

Ráðamenn í Litháen ætla mögulega að biðja Taívana um að breyta formlegu heiti ræðismannsskrifstofu Taívans í Litháen. Opnun skrifstofunnar hefur leitt til þess að Kína hefur beitt Litháen gífurlegum þrýstingi á undanförnum mánuðum.

Taívan opnaði ræðismannsskrifstofu í Litháen sem er formlega opnuð undir nafni Taívans. Því hafa Kínverjar, sem gera tilkall til eyríkisins, mótmælt harðlega og hafa þeir beitt Litháa miklum þrýstingi.

Ráðamenn í Kína hafa að undanförnu aukið þrýsting á þau fáu ríki sem eiga í opinberum samskiptum við Taívan. Eyríkið, sem Kína gerir tilkall til og hefur heitið að sameina meginlandinu, rekur sambærilegar skrifstofur víða um Evrópu í Bandaríkjunum en þær bera nafn Taipei, höfuðborgar landsins.

Meðal annars hafa ráðamenn í Kína sagt alþjóðlegum fyrirtækjum að slíta öll tengsl við Litháen eða eiga á hættu að vera útilokuð frá mörkuðum í Kína. Kínverjar hafa stöðvað allan innflutning frá Litháen.

Sjá einnig: Kínverjar þrýsta á alþjóðleg fyrirtæki um að slíta tengsl við Litháen

Samkvæmt heimildum Reuters fréttaveitunnar frá Vilníus íhuga ráðamenn í Litháen nú að láta undan þeim þrýstingi sem ríkið hefur verið beitt. Fréttaveitan segir Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra, hafa lagt til við Gitanas Nauseda, forseta, að hægt yrði að breyta nafninu svo það vísaði ekki til Taívans sem ríkis heldur taívanska fólksins.

Nauseda hefur verið mjög gagnrýninn á þá afstöðu varðandi Taívan sem Litháar hafa tekið.

Stjórnarflokkar Litháens samþykktu fyrir rúmu ári síðan að styðja „þá sem berjast fyrir frelsi í Taívan,“ eins og það var orðað. Í kjölfar opnunar skrifstofunnar kvörtuðu Kínverjar yfir því að Litháar hefðu hunsað viðvaranir þeirra og takmörkuðu samskipti ríkjanna.

Sjá einnig: Erindrekar Litháens kallaðir heim frá Kína vegna „ógnana“

Ríkisstjórn Taívans segir að engin beiðni um að breyta nafninu hafi borist.

Financial Times sagði frá því í síðustu viku að ráðamenn í Taívan hefðu beðið yfirvöld Bandaríkjanna um leyfi til að breyta nafni óformlegs sendiráðs eyríkisins í Washington DC svo það innihéldi nafn Taívan.

Bandaríkjamenn hafa ekki orðið við þeirri beiðni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×