Erlent

Íhugar að hefja aftur tilraunir með langdrægar eldflaugar

Samúel Karl Ólason skrifar
KIm Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
KIm Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. AP/KCNA

Ríkisstjórn Norður-Kóreu ætlar mögulega að hefja á nýjan leik tilraunir með langdrægar eldflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn. Sú ákvörðun var tekin á ríkisráðsfundi í vikunni að Kim Jung-un, einræðisherra Norður-Kóreu, íhugaði að hefja tilraunirnar aftur vegna „óvinveittrar stefnu“ Bandaríkjanna í garð einræðisríkisins.

Norður-Kórea hefur framkvæmt fjórar tilraunir með eldflaugar á undanförnum vikum, sem er í trássi við samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfar þess beittu Bandaríkin frekari refsiaðgerðum gegn Norður-Kóreu sem hefur lengi verið beitt viðskiptaþvingunum vegna kjarnorkuvopnaáætlunar ríkisins.

Ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, kallar nú eftir því að öryggisráðið herði viðskiptaþvinganirnar gegn Norður-Kóreu.

Sjá einnig: Skutu eldflaugum í fjórða sinn á mánuði

Í frétt Yonhap fréttaveitunnar frá Suður-Kóreu segir að á fundinum sem haldinn var í gær hafi Kim heitið því að undirbúa Norður-Kóreu fyrir langvarandi deilur við Bandaríkin og sagt að ekki væri lengur hægt að líta hjá þeirri ógn sem einræðisríkinu stafaði af þeim.

Kóreumenn hafa ekki gert tilraunir með langdrægar eldflaugar, sem geta borið kjarnorkuvopn víða um heim, frá árinu 2017. Ráðamenn í Bandaríkjunum lögðu fyrir nokkrum árum mikið púður í viðræður til að reyna að fá Kóreumenn til að hætta vopnaþróun en þær viðræður fóru út um þúfur árið 2019.

Ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, hefur boðið Kim viðræður á nýjan leik en því hefur Kim neitað og vill hann losna við einhverjar refsiaðgerðir áður.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda um nýlegar eldflaugatilraunir Norður-Kóreu í dag.


Tengdar fréttir

Flúði aftur yfir víggirt landamæri til Norður-Kóreu

Maður sem sást fara norður yfir landamæri Norður- og Suður-Kóreu um helgina hafði áður flúði úr norðri og til suðurs. Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu segir manninn hafa flúið frá einræðisríkinu í norðri í fyrra um sömu leið um austurhluta landamæranna víggirtu.

Gerðu tilraun með nýja eldflaug

Ráðamenn í Norður-Kóreu segjast hafa gert tilraun með nýja tegund eldflauga sem hafi verið þróaðar til að skjóta niður flugvélar og aðrar eldflaugar. Nýju eldflauginni var skotið á loft í gær og var það í fjórða sinn á nokkrum vikum sem Kóreumenn skjóta eldflaug á loft.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.