Erlent

Gerðu tilraun með nýja eldflaug

Samúel Karl Ólason skrifar
Nýja eldflaugin er hönnuð til að skjóta niður flugvélar og aðrar eldflaugar.
Nýja eldflaugin er hönnuð til að skjóta niður flugvélar og aðrar eldflaugar. AP/KCNA

Ráðamenn í Norður-Kóreu segjast hafa gert tilraun með nýja tegund eldflauga sem hafi verið þróaðar til að skjóta niður flugvélar og aðrar eldflaugar. Nýju eldflauginni var skotið á loft í gær og var það í fjórða sinn á nokkrum vikum sem Kóreumenn skjóta eldflaug á loft.

Fyrir september höfðu vísinda- og hermenn Norður-Kóreu ekki skotið eldflaug á loft í hálft ár.

AP fréttaveitan vitnar í KCNA, ríkismiðil Norður-Kóreu, sem segir markmið tilraunaskotsins hafa verið að kanna getu eldflaugarinnar, skotpallsins og ratsjár hans. Þá segir að tilraunin hafi gengið vonum framar og þar að auki hafi tekist að auka drægni eldflaugarinnar.

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, stakk upp á því í vikunni að samskiptum yrði komið aftur á milli ráðamanna í Norður- og Suður-Kóreu. Þrátt fyrir það segja embættismenn í Suður-Kóreu að símtölum þeirra til nágranna sinna hafi ekki verið svarað, samkvæmt frétt Yonhap frá Suður-Kóreu.

Tilraunir Norður-Kóreu með eldflaugar eru brot á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórn landsins hefur á undanförnum árum varið miklu púðri í að framleiða kjarnorkuvopn og lang- og skammdrægar eldflaugar sem geta borið þau vopn.

Viðræður um kjarnorkuvopnaáætlun einræðisríkisins hafa verið strandaðar frá 2019 en Norður-Kórea hefur ekki gert tilraun með langdrægar eldflaugar í fjögur ár.


Tengdar fréttir

Norður-Kórea kynnti færanlegan lestarskotpall

Spenna fer vaxandi á Kóreu-skaga eftir að bæði Suður- og Norður-Kórea hafa sýnt mátt sinn með því að skjóta eldflaugum á loft. Myndband sýnir að Norður-Kórea hefur nú þróað færanlegan eldflaugaskotpall. Elflaugunum er skotið af lestarvagni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×