Enski boltinn

Bergwijn kom Totten­ham til bjargar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Steven Bergwijn reyndist hetja Tottenham í kvöld.
Steven Bergwijn reyndist hetja Tottenham í kvöld. Tottenham Hotspur

Varamaðurinn Steven Bergwijn kom Tottenham Hotspur til bjargar í 3-2 sigrinum gegn Leicester City í kvöld. Bergwijn skoraði tvívegis í uppbótartíma og sá til þess að Spurs fór heim til Lundúna með stigin þrjú.

Leicester tók á móti Tottenham í fyrri leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Erfitt var að rýna í við hverju mátti búast enda bæði lið verið upp og niður að undanförnu.

Gestirnir frá Lundúnum byrjuðu betur og átti Harry Kane til að mynda skalla í slá sem og það var bjargað á línu frá honum. Það voru hins vegar heimamenn sem komust yfir um miðbik fyrri hálfleiks þegar Patson Daka skóflaði knettinum í netið úr þröngu færi.

Harry Kane jafnaði metin þegar sjö mínútur voru til hálfleiks. Hann lék á hvern leikmann Leicester á fætur öðrum áður en hann þrumaði boltanum í netið og staðan 1-1 er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Staðan var markalaus framan af síðari hálfleik en á 76. mínútu kom James Maddison heimamönnum yfir á nýjan leik. Hann skoraði þá eftir undirbúning Harvey Barnes sem hafi aðeins verið inn á vellinum í rétt rúma mínútu.

Í kjölfarið kom Bergwijn inn á hjá Tottenham og sá átti eftir að hafa áhrif á leikinn. Þegar komnar voru fimm mínútur fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði hann metin eftir undirbúning Matt Doherty og 79 sekúndum síðar tryggði Bergwijn gestunum sigurinn þegar hann renndi boltanum í netið eftir sendingu Kane.

Lokatölur 3-2 Tottenham í vil eftir hreint ótrúlegar lokamínútur. Tottenham fer upp í 5. sæti deildarinnar með 36 stig eftir 19 leiki. Leicester er á sama tíma í 10. sæti með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×