Erlent

Flugfélög vara við óreiðu vegna 5G

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugfélögin gætu þurft að fella niður þúsundir flugferða vegna 5G sendinga.
Flugfélögin gætu þurft að fella niður þúsundir flugferða vegna 5G sendinga. AP/Charlie Riedel

Forsvarsmenn bandarískra flugfélaga segja að ætlanir samskiptafyrirtækjanna Verizon og AT&T um að kveikja á 5G kerfi þeirra í vikunni muni valda gífurlegri óreiðu. Hætta þurfi við þúsundir flugferða og hagkerfi Bandaríkjanna muni bíða mikla hnekki.

Forsvarsmennirnir hafa sent bréf á Pete Buttigieg, samgönguráðherra, og annarra embættismanna og varað við því að ætlanir samskiptafyrirtækjanna muni hafa miklar og slæmar afleiðingar fyrir vöruflutninga í Bandaríkjunum, samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar.

5G samskiptakerfi bjóða upp á mun meiri hraða en 4G. Kerfið notar þó sambærilega tíðni og ýmiss búnaður í flugvélum. Þar á meðal búnaður sem mælir hæð flugvéla frá jörðu. Þetta segja flugfélögin að geti dregið verulega úr öryggi.

Forsvarsmenn samskiptafyrirtækjanna segja hins vegar að flugfélögin hafi haft mörg ár til að búa sig undir notkun 5G og uppfæra það sem nauðsynlegt er að uppfæra, samkvæmt frétt New York Times.

Samkomulag milli samskiptafyrirtækjanna og Flugmálastofnun Bandaríkjanan (FAA) hafði náðst um að Verizon og AT&T myndu ganga úr skugga um að dregið yrði úr orkunni til 5G senda nærri flugvöllum.

Nú krefjast forsvarsmenn flugfélaganna þess að engar 5G bylgjur finnist í um þriggja kílómetra fjarlægð frá flugvöllum. Fjölmiðlar ytra segja viðræður í gangi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×