Erlent

Skutu eldflaugum í fjórða sinn á mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, fylgist með fréttaflutningi af nýjustu eldflaugaskotunum.
Fólk í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, fylgist með fréttaflutningi af nýjustu eldflaugaskotunum. AP/Lee Jin-man

Tveimur eldflaugum var skotið á loft frá frá Norður-Kóreu í nótt. Eldflaugunum var skotið frá flugvellinum í Pyongyang, höfuðborg einræðisríkisins einangraða en þetta var í fjórða sinn á einungis mánuði sem sambærilegar tilraunir eru gerðar.

Að þessu sinni er talið að eldflaugarnar tvær hafi verið hefðbundnar skammdrægar eldflaugar en ríkisstjórn Norður-Kóreu segist hafa gert tvær tilraunir með svokallaða hljóðfráar eldflaugar.

Þær ferðast á margföldum hljóðhraða og geta breytt stefnu með miklum hraða og er þess vegna erfitt að skjóta þær niður.

Reuters hefur eftir Nobuo Kishi, varnarmálaráðherra Japans, að eldflaugarnar hafi fallið í hafið undan austurströnd Norður-Kóreu. Þær eru sagðar hafa flogið um 38 kílómetra í um 42 kílómetra hæð.

Kishi segir augljóst að Kóreumenn hafi notað tíð eldflaugaskot sín til að betrumbæta tækni þeirra og getu.

„Ítrekuð eldflaugaskot frá Norður-Kóreu eru alvarlegt vandamál fyrir alþjóðasamfélagið og þar á meðal Japan,“ sagði Kishi.

Vilja losna við þvinganir

Eldflaugaskot Norður-Kóreu eru ekki leyfð samkvæmt ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt þeim ályktunum er ríkinu óheimilt að þróa eldflaugar vegna kjarnorkuvopnaáætlunar ríkisins. Einræðisríkið hefur verið beitt umfangsmiklum og ströngum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum um árabil vegna þessara áætlana.

Þrátt fyrir það hafa vísindamenn ríkisins komið upp kjarnorkuvopnum og eldflaugum sem geta borið þau vopn langar vegalengdir.

Engar tilraunir hafa verið gerðar með langdrægar eldflaugar, sem geta borið kjarnorkuvopn víðsvegar um heiminn frá 2017.

Ráðamenn í Bandaríkjunum lögðu fyrir nokkrum árum mikið púður í viðræður til að reyna að fá Kóreumenn til að hætta vopnaþróun en þær viðræður fóru út um þúfur árið 2019.

Sérfræðingar sem AP fréttaveitan ræddi við segja mögulegt að Kim Jong Un, einræðisherra, vilji með tíðum eldflaugaskotum þvinga andstæðinga sína til að hefja viðræður á ný á sínum forsendum.

Ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, hefur boðið Kim viðræður á nýjan leik en því hefur Kim neitað og vill hann losna við einhverjar refsiaðgerðir áður.


Tengdar fréttir

Japan og Bandaríkin taka höndum saman gegn Kína

Ráðamenn í Japan og Bandaríkjunum lýstu í nótt yfir áhyggjum sínum af aukinni hernaðargetu Kína. Þá hétu þeir því að vinna nánar saman í varnarmálum eftir fjarfund utanríkis- og varnarmálaráðherra ríkjanna.

Skutu enn einni eldflauginni á loft

Eldflaug var skotið frá Norður-Kóreu í nótt og var það í fyrsta sinn í minnst tvo mánuði. Ekki liggur fyrir hvers konar eldflaug um er að ræða en henni var skotið frá sambærilegum stað og annarri eldflaug í fyrra sem ríkisstjórn einræðisríkisins sagði vera hljóðfráa eldflaug.

Flúði aftur yfir víggirt landamæri til Norður-Kóreu

Maður sem sást fara norður yfir landamæri Norður- og Suður-Kóreu um helgina hafði áður flúði úr norðri og til suðurs. Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu segir manninn hafa flúið frá einræðisríkinu í norðri í fyrra um sömu leið um austurhluta landamæranna víggirtu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×