Erlent

Japan og Bandaríkin taka höndum saman gegn Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Japanir hafa aukið fjárútlát til varnarmála töluvert á undanförnum árum.
Japanir hafa aukið fjárútlát til varnarmála töluvert á undanförnum árum. AP/Eugene Hoshiko

Ráðamenn í Japan og Bandaríkjunum lýstu í nótt yfir áhyggjum sínum af aukinni hernaðargetu Kína. Þá hétu þeir því að vinna nánar saman í varnarmálum eftir fjarfund utanríkis- og varnarmálaráðherra ríkjanna.

Í kjölfar fundarins lýstu ráðherrarnir yfir áhyggjum af því sem þeir sögðu tilraunir Kínverja til að grafa undan stöðugleika og auka spennu á svæðinu. Ráðherrarnir hétu því að sporna gegn þessum tilraunum og bregðast við þeim.

Þá sögðust þeir hafa miklar áhyggjur af stöðu mannréttinda í Xinjiang-héraði þar sem Kínverjar hafa verið sakaðir um þjóðarmorð á minnihlutahóp Úígúra. Ráðherrarnir sögðust einnig hafa áhyggjur af stöðu mála í Hong Kong, þar sem Kommúnistaflokkur Kína hefur beitt umdeildum öryggislögum til að brjóta lýðræðislegt stjórnkerfi eyjunnar á bak aftur.

Sjá einnig: Lögregluþjónn lýsti kerfisbundnum pyntingum og ofbeldi í Xinjiang

Reuters segir Japani hafa auknar áhyggjur af mögulegri innrás Kína í Taívan en í Japan hefur töluvert meira fé verið veitt til varnarmála á síðastliðinum áratug. Ráðamenn í Japan hafa sagt opinberlega að þeir myndu koma Taívan til varnar.

Japanir hafa einnig áhyggjur af eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu sem hefur að undanförnu unnið að þróun hljóðfrárra eldflauga.

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, skrifaði í gær undir varnarsáttmála við Ástralíu sem fjallar um aukna samvinnu á sviðið hernaðar og sameiginlegar heræfingar.

Sjá einnig: Ástralar og Japanir skrifa undir varnarsáttmálaAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.