Enski boltinn

Mo Salah segist ekki vera að biðja um „eitthvað klikkað“ í nýjum samningi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hefur verið frábær með Liverpool öll fimm árin en líklega aldrei betri en á þessu tímabili.
Mohamed Salah hefur verið frábær með Liverpool öll fimm árin en líklega aldrei betri en á þessu tímabili. EPA-EFE/Lynne Cameron

Mohamed Salah ræddi um samningamál sín við Liverpool í nýju viðtali og hans mati er hann ekki að fara á fram einhver ofurlaun.

Salah á minna en átján mánuði eftir af samningi sínum við Liverpool en hann verður þrítugur í júní. Hann vill spila áfram með Liverpool en samningamálin ganga ekki alltof vel.

„Ég vil vera áfram en þetta er ekki í mínum höndum. Þetta er í þeirra höndum. Ég er ekki að biðja um eitthvað klikkað,“ sagði Mohamed Salah í nýju viðtali við GQ.

Salah hefur verið frábær hjá Liverpool og langbesti leikmaður liðsins síðasta árið. Með hann innanborðs hefur Liverpool bæði unnið ensku deildina og Meistaradeildina.

„Málið er að þegar þú biður um eitthvað og þeir sýna þér að þeir geti gefið þér slíkt þá ættu þeir að gera það sem viðurkenningu á því sem þú hefur gert fyrir félagið,“ sagði Salah.

„Ég er á mínu fimmta ári hjá félaginu og ég þekki félagið orðið mjög vel. Ég elska stuðningsmennina og þeir elska mig. Yfirstjórnin veit hvað þarf að gerast og þetta er í þeirra höndum,“ sagði Salah.

Salah viðurkenndi líka að hann hafi metnað til þess að verða besti leikmaður í heimi.

„Ef þú spyrð mig hreint út í það þá get ég ekki logið og sagt að ég hugsi ekki um það. Ég vil vera besti leikmaður heims. Ég mun samt lifa góðu lífi þótt ég vinni ekki Gullhnöttinn. Lífið mitt er ágætt,“ sagði Salah.

Mohamed Salah er kominn með 23 mörk og 9 stoðsendingar í 26 leikjum Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni á þessu tímabili. Hann hefur alls skorað 148 mörk í 229 leikjum fyrir félagið síðan hann var keyptur frá Roma í júlí 2017.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.