Enski boltinn

Hrósar Cole Palmer í hástert og líkir honum við Phil Foden

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cole Palmer kemur inn á fyrir Phil Foden gegn Club Brugge í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Cole Palmer kemur inn á fyrir Phil Foden gegn Club Brugge í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Matt McNulty - Manchester City/Manchester City FC via Getty Images

Hinn 19 ára Cole Palmer skoraði fjórða mark Manchester City í öruggum 4-1 sigri gegn Swindon í FA bikarnum í gær og Rodolfo Borrell, aðstoðarþjálfari liðsins, segir að leikmaðurinn hafi hæfileikana til að feta í fótspor Phil Foden.

Palmer fékk tækifæri í byrjunarliði City, en alls voru 20 leikmenn og starfsmenn liðsins fjarverandi vegna kórónuveirunnar, þar á meðal Pep Guardiola, þjálfari liðsins, og sjö byrjunarliðsmenn.

Borrell stýrði liðinu í fjarveru Guardiola og hann hrósaði leikmanninum unga í hástert.

„Hann æfir með okkur á hverjum degi og hann býður upp á mikil gæði,“ sagði Borrell eftir sigurinn í gær.

„Við sjáum það allir. Hann er enn að þroskast en það er augljóst að hann býr yfir miklum hæfileikum og vonandi getur hann bráðum fengið að spila fleiri mínútur, eins og Phil Foden fyrir nokkrum árum.“

„Þeir eru tveir frábærir leikmenn og Cole hefur hráefnin til að vinna með, en sjáum til. Hann þarf að halda áfram að leggja hart að sér og sýna að hann getur haldið áfram slíkri frammistöðu.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.